Steingrímur gagnrýnir fjölmiðla

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna og fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna og fjármálaráðherra. Ernir Eyjólfsson

„Ég get nú ekki sagt að það komi mikið á óvart þótt stuðningur við stjórnina taki dýfu,“ segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, aðspurður um þá niðurstöðu nýrrar könnunar að stjórnin njóti 30% stuðnings. Hann gagnrýnir fjölmiðla fyrir að „tala hlutina niður úr gólfinu“.

Steingrímur bendir á að aðstæður hafi verið erfiðar. 

„Þetta er búinn að vera umbrotamánuður og við lögðum fram mjög erfitt fjárlagafrumvarp í byrjun mánaðarins og umræðan hefur dálítið markast af þeim erfiðleikum sem við erum að glíma við. Þannig að það er nú kannski ekki hægt að segja að það komi mikið á óvart. Ef við lítum í kringum okkur sjáum við að ríkisstjórnir eru mjög víða að glíma við þetta sama að aðstæðurnar neyða menn til að grípa til ýmissa og óvinsælla ráðstafana. Það er ekki hægt búast við því að það sé til vinsælda fallið en hluti af þessu tagi verður að gera engu að síður."

– Nú mælist fylgi Sjálfstæðisflokksins 36% en stjórnarinnar 30%. Er það ykkur í Vinstri grænum ekki mikið áhyggjuefni?

„Að sjálfsögðu vildi maður alltaf fá betri útgáfu í könnunum en þær eru ekki það sem skiptir mestu máli. Við erum að síga undir mitt kjörtímabil og glíma við mjög erfiðar aðstæður þannig að það er ekki hægt að segja að það komi mjög á óvart og ég sé nú ekki að stjórnarandstaðan sé að komast neitt vel út úr þessu.“

Fái að njóta vafans

– Nú var efnt til fjölmennra mótmæla í Reykjavík í byrjun síðasta mánaðar og í kjölfarið boðaði ríkisstjórnin til samráðsfunda með hagsmunaaðilum. Bendir þessi könnun ekki til að stjórninni hafi mistekist að leiða þjóðina saman?

„Nei. Það gerir það alls ekki enda er það samstarf enn í fullum gangi og við erum að vonast til að draga fari að niðurstöðum í því. Þannig að það á ekki að dæma það fyrirfram þótt mönnum liggi mikið á og hafi áhuga á að bera fram mikið af jákvæðum spurningum. Látum það njóta vafans þangað til niðurstöður liggja fyrir í því. Ég held að það hafi verið mjög gagnlegt að fá alla að borðinu, bankastofnanir, lífeyrissjóði, hagsmunasamtök og stjórnvöld.

Það þarf að gera meira af því vegna þess að við Íslendingar höfum okkur ekkert í gegnum þetta sem þjóð nema að allir leggist á árarnar. Þar þurfa allir að vera sér meðvitaðir um ábyrgð sína í því sambandi og þar á meðal fjölmiðlar.“

Samanburður við Bandaríkin

– Hvað áttu við með því?

„Ég held að það sé athyglisvert að bera saman línuna sem þáttastjórnendur vestanhafs hafa tekið andspænis erfiðleikunum sem Bandaríkjamenn hafa reynt að sameinast um og svo hvernig við höfum verið að takast á við þetta hér heima.

Það er að sjálfsögðu rétt og skylt að vera með gagnrýna umfjöllun og veita stjórnvöldum aðhald. Það eiga góðir fjölmiðlar að gera. En það þarf að vera uppbyggilegt um leið og það má ekki tala okkur algerlega niður úr gólfinu. Við þurfum auðvitað að varðveita trú okkar á það að við komumst út úr þessu sem þjóð. Við eigum að hjálpast einhvern að því að hlúa að trúnni á framtíðina.“

Batamerkin láta á sér standa

– Nú ertu helsti talsmaður stjórnarinnar og tekur hitann og þungann af þeirri gagnrýni sem beinist að ríkisstjórninni. Tekurðu það til þín að það hafi ekki tekist að tala kjark í þjóðina, eins og þú orðar það?

„Nei. Ég geri það ekki vegna þess að ég tel mig kannski helst hafa verið að reyna það og með takmörkuðum stuðningi. Það er þrátt fyrir allt þannig að við höfum náð töluverðum árangri. Við höfum náð stöðugleika en vissulega láta batamerkin á sér standa og sú bið – við erum á einhverjum liggjanda á þessu enn þá – er mjög erfið.

Ég hef sjálfur greint það þannig að við erum sennilega á einhverju erfiðasta tímabili þessa skeiðs því að það er mjög erfitt þegar svona erfiðleikar dragast á langinn áður en við förum að fá skýrari vísbendingu og teikn um að viðsnúningurinn sé orðinn. Við erum á mjög erfiðu tímabili. Það eru allir orðnir mjög þreyttir. Þetta er farið að reyna mjög á.

Við þær aðstæður þurfa menn að hjálpast við að missa ekki trúna á framtíðina, að missa ekki kjarkinn. Og þar liggur meðal annars ábyrgð fjölmiðla. Ég er ekkert feiminn við að benda á það í þessum efnum. Ég tel að það sé enginn dónaskapur eða enginn hroki að benda á það að fjölmiðlar bera mikla ábyrgð við allar aðstæður. Bæði í góðgæri og líka í kreppu.

Ég er vissulega hugsi yfir því á köflum að hún er ansi brothætt þessi trú okkar á framtíðina. Maður sá hvernig þessar mælingar á væntingavísitölunni hrundu niður og ekki að tilefnislausu. Það er eins og þjóðin hafi verið slegin til baka aftur.

Það getur auðvitað ekki talist jákvætt eða gott að því marki sem að það eru efnislegar innistæður fyrir því enda verða menn þá að horfast í augu við þann veruleika.

Maður veltir því auðvitað fyrir sér af hverju bakslagið er svona harkalegt [í vísitölunni] þegar undirliggjandi kennitölur, þróun atvinnuleysis, verðbólgu og vaxta og fleiri hlutir miða í rauninni í rétta átt. Það er þannig sem betur fer enda hafa þær aðstæður verið að lagast."

Snýst um tiltrú á framtíðina

– Ertu að segja að fjölmiðlar hafi ýtt undir neikvæðni?

„Maður veltir því fyrir sér hvernig andrúmsloftið í heild hefur þróast. Það vita allir sem hafa lesið hagsögu að þetta er líka ákveðið andrúmsloft og ákveðið sálarástand og það hefur efnahagslegt vægi.

Þetta snýst um tiltrú manna á hlutina og framtíðina. Ég er búinn að ræða mikið við menn sem ég þekki í Finnlandi, Svíþjóð og Noregi sem hafa reynslu af því að ganga í gegnum kreppur og verið að bera mig saman við þá.

Þær hljóma alveg ótrúlega kunnuglega lýsingar þeirra á ástandinu eftir eitt og hálft til tvö ár og því sem við er að glíma hjá okkur. Þegar allir höfðu á tilfinningunni að þetta væri að snúast við og lagast en trúin var ekki til staðar gerðist það ekki.

Ég held að við séum á því tímabili og ég skil það alveg því að ég held að okkur vanti skýr merki um að þetta sé að lagast. Það eiga margir hlut að máli og kannski ekki síst væntanlega við sem höfum kannski ekki vera nógu kjarkmikil og dugleg við að stappa stálinu í þjóðina og hvetja hana áfram. Það snýr ekkert síður að okkur öllum en fjölmiðlunum en þeir eiga þarna hlut að máli," segir Steingrímur J. Sigfússon.

Frá mótmælum á Austurvelli í október. Steingrímur brýnir fyrir þjóðinni …
Frá mótmælum á Austurvelli í október. Steingrímur brýnir fyrir þjóðinni að missa ekki trúna á framtíðina. Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert