Svifryksgildi mælast nú há við Grensásveg í Reykjavík. Hálftímagildið klukkan 15.30 í dag mældist yfir eitt þúsund míkrógrömm á rúmmetra en heilsuverndarmörkin á sólarhring eru 50 míkrógrömm á rúmmetra. Meðaltal frá miðnætti er 113.
Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkur segir, að um sé að ræða staðbundin áhrif á Grensásvegi, sennilega vegna uppþyrlunar ryks frá götum, frá framkvæmdasvæðum eða salts úr sjónum. Þetta bendi til að gildi svifryks sé einnig hátt á fleiri stöðum í borginni, t.d. við helstu umferðargötur.
Þurrviðri er í Reykjavík, rakastig lágt og jörð þurr. Veðurstofan spáir svipuðu veðri fram eftir degi.