VG mótmælir niðurskurði ríkisstjórnarinnar

VG í Skagafirði mótmælir niðurskurði á heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki
VG í Skagafirði mótmælir niðurskurði á heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki www.mats.is

Félagar í svæðisfélagi VG í Skagafirði mótmæla harðlega áformum um 30% niðurskurð hjá Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki, sem boðaður er í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2011.

Þetta kemur fram í ályktun frá félaginu vegna fyrirhugaðs niðurskurðar ríkissstjórnar VG og Samfylkingar í heilbrigðismálum.

„Verði af slíkum niðurskurði, mun stofnunin ekki geta haldið uppi óbreyttri þjónustu, frá því sem nú er, stöðugildum mun fækka um 35 – 40 og sjúkrasvið nánast leggjast af, auk þess sem niðurskurðurinn mun koma niður á nær allri starfsemi stofnunarinnar. Slíkt mun hafa í för með sér skert öryggi fyrir íbúa héraðsins, sem munu verða að sækja læknisþjónustu í vaxandi mæli út fyrir héraðið með tilheyrandi óhagræði og kostnaðarauka fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra.

Jafnframt mótmælir fundurinn niðurskurði þeim, sem fyrirhugaður er, samkvæmt fjárlagafrumvarpinu, og taka á til nær allra heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni, sem líkja má við aðför að dreifbýlinu.
 
Góð heilbrigðisþjónusta er hornsteinn hvers byggðarlags, og sé dregið úr henni, mun það ýta enn frekar undir fólksflótta af landsbyggðinni til þéttbýlisins, sem nógur er fyrir. Hér er því einnig um byggðamál að ræða.
 
Fundurinn telur, að leita verði allra annarra leiða fremur til að draga úr útgjöldum hins opinbera en að skera stórlega niður þjónustu heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Má þar t.d. nefna utanríkisþjónustuna og kostnað við aðildarumsókn að ESB, þar sem hægt væri að spara stórar fjárhæðir.
 
Að skera niður í heilbrigðisþjónustunni er að ráðast á garðinn, þar sem hann er lægstur. Það er að byrja á öfugum enda. Slíkt getur ríkisstjórn, sem kennir sig við velferð, ekki látið viðgangast.  Fundurinn skorar á ráðherra VG og þingmenn að að hrinda þessari aðför að heilbrigðisþjónustu landsmanna," segir í ályktun frá VG í Skagafirði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert