Flokkahópur Vinstri-Grænna í Norðurlandaráði telur að skilgreina þurfi eignarhald á náttúruauðlindum í löggjöf og stjórnarskrám norrænu ríkjanna. Fulltrúar Grænlands og Færeyja í flokkahópum segja að pólitísk samstaða sé í löndum þeirra um að auðlindir skuli vera í eigu þjóðarinnar og að það þurfi að koma fram í stjórnarskrám þeirra í framtíðinni.
Þetta kom fram á blaðamannafundi sem flokkahópur Vinstri-grænna hélt í dag, þriðjudaginn 2. nóvember, í tengslum við Norðurlandaráðsþing í Reykjavík, að því er segir í tilkynningu.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra kynnti tillöguna á fundinum fyrir hönd Vinstri-grænu flokkanna. Hann benti á að auk eignarhaldsins þyrfti að tryggja að arður af nýtingu auðlindanna rynni til almennings.
„Þessar spurning verða æ mikilvægari eftir því sem baráttan um auðlindirnar harðnar og verð á orku hækkar. Hver á að njóta arðsins af þessum takmörkuðu auðlindum? Þá er klárlega best að þær séu í almannaeigu og að auknar tekjur af nýtingu þeirra komi almenningi til góða," er haft eftir Steingrími í fréttatilkynningu.
Færeyski þingmaðurinn Høgni Hoydal segir að pólitísk samstaða sé um það í Færeyjum að auðlindirnar eigi að vera í almannaeigu.
Í Færeyjum er verið að vinna að stjórnarskrá og þar er spurningin um eignarhald á auðlindum mikilvægt mál. Það kemur fram í drögunum að auðlindirnar eigi að vera í almannaeigu og jafnframt að arðurinn af þeim skuli koma almenningi til góða.
Grænlenski þingmaðurinn Debora Kleist segir að í heimalandi hennar sé jafnframt samstaða um að auðlindir á borð við olíu, málma og fisk eigi að vera í eigu almennings og að geri megi ráð fyrir að það verði tekið fram í stjórnarskrá þegar þar að kemur.