22.000 með skuldir í löginnheimtu

Átta prósent einstaklinga eldri en 18 ára eru í dag með skuldir í löginnheimtu, eða ríflega 22 þúsund manns. Þar mælast hæst fjárhagserfiðleikar einstæðra foreldra en síðustu mánuði hafa 13 – 15% þessa hóps verið með mál í löginnheimtu. Þetta segir í nýju fréttabréfi Creditinfo.

Þar segir ennfremur að frá því snemma árs 2008 hafi alvarlegir fjárhagserfiðleikar heimila aukist.  Fjölgun löginnheimtumála til skráninga á vanskilaskrá hafi þó hægt á sér síðustu mánuði og skýrist það að mestu leyti vegna inngripa bankanna, s.s. frystingu lána. 

„Creditinfo hefur frá hruni ítrekað bent á að fjárhagserfiðleikar barnafjölskyldna og einstæðra foreldra séu miklir.  Til dæmis hafa alvarlegir fjárhagserfiðleikar mælst hlutfallslega hæst hjá einstæðum foreldrum en fjölmennasti hópur þó verið aldurshópur 30 – 50 ára með börn á heimili.  Afleiðing af þessu er að barnafólk og einstæðir foreldrar eru nú meira áberandi í alvarlegri innheimtum, s.s. árangurslausum fjárnámum og framhaldsuppboðum.  1.233 börn búa á heimilum auglýstum á framhaldsuppboði fyrstu 9 mánuði ársins,“ segir í fréttabréfinu.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert