Snjóframleiðsla var enn á dagskrá fundar stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í byrjun vikunnar. Enn hafa engar ákvarðanir verið teknar um hvort af verði og af þeim gögnum sem lögð hafa verið fram virðist nokkuð í að ákvörðun verði tekin. Framkvæmdastjóri skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins segir að í sínum huga sé engin spurning um að kerfið muni sanna sig.
Í síðustu viku var haldinn upplýsingafundur um snjóframleiðsluna þar sem farið var yfir stöðu mála. Meðal þess sem þar kom fram er að enn væri ósvarað spurningum um veðurfarsforsendur og líkindi til þess að þær skapi skilyrði til ásættanlegs árangurs. Í minnisblaði Einars Sveinbjörnssonar, veðurfræðings, vegna málsins var aðeins birt lausleg talning á veðurmælingum til bráðabirgða og segir að frekari mælingar þurfi til. Þar er einnig stuttlega vikið að hægfara loftlagshlýnun vegna aukinna gróðurhúsalofttegunda, og vitnað í tveggja ára skýrslu vísindanefndar um hnattrænar loftlagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi, en í henni segir að líklegast sé að hlýnun verði um 1°C fram að miðbiki þessarar aldar, en 1,4 til 2,4 gráður við lok hennar. Að sama skapi sé gert ráð fyrir að úrkoma aukist lítillega með hækkandi hitastigi.
Sú tillaga sem liggur fyrir um stofn- og rekstrarkostnað er skýr. Stofnkostnaður er áætlaður um 260-270 milljónir króna og áætlaður rekstrarkostnaður um 27 milljónir króna.
Magnús segir að með hógværum forsendum megi gera ráð fyrir að tekjur umfram rekstrarkostnað við framleiðsluna muni nema um 30 milljónum króna aukalega.
Niðurstaðan af upplýsingafundinum var hins vegar sú að óvissa um veðurfarsforsendur drægi úr gildi áætlunarinnar.
Hins vegar mótast hún af almennum varúðarsjónarmiðum sem embættið þarf að hafa í huga vegna álags, áhættu og þolmarks fyrir vatnssvæðið sem meðal annars myndi fylgja frekari uppbyggingu og þar með aukinni aðsókn að skíðasvæðinu. Ekki skipti þó máli hvort sú aukning kæmi til vegna snjóframleiðslu eða af öðrum ástæðum.