Botninum ekki náð á fasteignamarkaði

Seðlabankinn telur að botninum sé ekki enn náð á fasteignamarkaði
Seðlabankinn telur að botninum sé ekki enn náð á fasteignamarkaði mbl.is/Valdís Þórðardóttir

Hluta þrenginga heimilanna eftir fjármálakreppuna má rekja til lækkunar á raunverði húsnæðis. Mikil lækkun raunverðs húsnæðis er aftur á móti ekki séríslensk og má sjá svipaða þróun í mörgum af þeim löndum þar sem hin alþjóðlega fjármálakreppa hafði hvað mest áhrif.

Seðlabanki Íslands telur að enn sé botninum ekki náð varðandi húsnæðisverð á Íslandi og reikna megi með því að raunverð húsnæðis muni lækka enn frekar.

Eftir að fjármálakreppan tók að grafa um sig lækkaði raunverð töluvert og var komið nálægt því sem það var snemma á áratugnum. Þróunin á Íslandi var því ekkert einsdæmi, þó að verðhækkunin í aðdragandanum hér hafi verið meiri en annars staðar m.a. vegna þeirra umfangsmiklu breytinga sem urðu á íbúðalánamarkaði árið 2004.

Á Írlandi, Bretlandi og í Bandaríkjunum er raunverð húsnæðis nú á svipuðum slóðum og það var á fyrri hluta áratugarins. Vegna þess hve áhrif fjármálakreppunnar eru mikil hér á landi, má reikna með að raunverð húsnæðis muni lækka enn frekar áður en varanlegur viðsnúningur eigi sér stað. Þó er gert ráð fyrir minni lækkun húsnæðisverðs en spáð var í ágúst.

Nokkurri óvissu um fjármálaleg skilyrði heimila hefur verið eytt með nýföllnum dómum Hæstaréttar um lögmæti gengistryggðra lána og meðferð vaxtaliðar slíkra samninga.

Að öðru óbreyttu ætti það að skýra skuldastöðu heimila sem aftur leggur ákveðinn grundvöll að aðgengi þeirra að lánamarkaði. Hins vegar virðist botninum á íbúðamarkaði ekki vera náð hvað verðþróun varðar, eins og áður hefur komið fram.

Þrátt fyrir það var mikil aukning umsvifa á fasteignamarkaðnum í september og er það e.t.v. til marks um bætt skilyrði hluta heimilisgeirans, en skuldastaða heimila eftir fjármálakreppuna er mjög misjöfn. Reikna má með því að efnahagsreikningar hluta heimila beri merki misgengis almenns verðlags og húsnæðisverðs um nokkurt skeið, segir í umfjöllun Peningamála um fasteignamarkaðinn.

Spá því að magn íbúðafjárfestingar minnki um 73% frá árinu 2007

Gert er ráð fyrir að fjárfesting í íbúðarhúsnæði nemi 2,1% af landsframleiðslu á þessu ári. Í spánni felst að magn íbúðarfjárfestingar í ár minnki um 73% frá því sem það var á árinu 2007.

Í spánni er gert ráð fyrir að skattalegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að auka viðhald á íbúðarhúsnæði valdi nokkurri aukningu miðað við það sem venjulegt er. Íbúðarfjárfesting nam 6,9% af landsframleiðslu árið 2007 og hefur hlutfallið ekki verið hærra frá árinu 1980.

Spáð hlutfall íbúðarfjárfestingar af landsframleiðslu á þessu ári er lægra en það sem áður hefur mælst en hlutfallið hefur oftast verið á bilinu 4-5%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert