Enn vex í Gígju

Gunnar Sigurðsson, vatnamælingarmaður tekur sýni úr Gígju.
Gunnar Sigurðsson, vatnamælingarmaður tekur sýni úr Gígju. mbl.is/RAX

Rennslið í Gígju er nú komið í 2.600 rúm­metra á sek­úndu, sam­kvæmt mæl­ing­um vatna­mæl­inga­manna Veður­stof­unn­ar við Gígju. Rennslið hef­ur tvö­fald­ast á hverj­um 17 klukku­stund­um í þessu hlaupi. Það gæti því farið yfir 5.000 rúm­metra næstu nótt ef vöxt­ur hlaups­ins held­ur áfram svo lengi.

Gígja bylt­ist fram kol­mó­rauð und­ir brúnni. Vatns­flaum­ur­inn ryðst fram enda á milli und­ir öllu brú­ar­haf­inu sem er nær 340 metra langt. Vatna­mæl­inga­menn­irn­ir Gunn­ar Sig­urðsson og Hilm­ar Hróðmars­son hafa verið við mæl­ing­ar á hlaup­inu frá því það hófst. Þeir taka aur­sýni nokkr­um sinn­um á dag og mæla rennslið í ánni.

Leiðnin er enn að aukast og var leiðnital­an 516 í morg­un sem er rúm­lega fimm­falt venju­legt gildi í Gígju. Leiðnin er mæli­kv­arði á magn upp­leystra efna en nóg virðist vera af þeim í vatn­inu sem nú hleyp­ur fram úr Grím­svötn­um. 

Af og til ber­ast ís­jak­ar með straumn­um en þeir eru koks­grá­ir og varla ná upp úr flaumn­um. Einn slík­ur  „kaf­bát­ur“ rakst í vír mæl­ing­ar­mann­anna í gær og hélt síðan för sinni áfram og lenti á raflínu­sam­stæðu sem var úti í ánni. Sver­ir staur­arn­ir kubbuðust í sund­ur að sögn Hilm­ars mæl­inga­manns.

Sam­stæðan hélt uppi þrem­ur raf­strengj­um og hanga leif­arn­ar af staur og þver­bita í tveim­ur raflín­um en sú þriðja slitnaði í nótt. Hjóla­skófla og skurðgrafa eru nú að treysta bakka Gígju til að verja aðra staura í raflín­unni.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert