Enn vex í Gígju

Gunnar Sigurðsson, vatnamælingarmaður tekur sýni úr Gígju.
Gunnar Sigurðsson, vatnamælingarmaður tekur sýni úr Gígju. mbl.is/RAX

Rennslið í Gígju er nú komið í 2.600 rúmmetra á sekúndu, samkvæmt mælingum vatnamælingamanna Veðurstofunnar við Gígju. Rennslið hefur tvöfaldast á hverjum 17 klukkustundum í þessu hlaupi. Það gæti því farið yfir 5.000 rúmmetra næstu nótt ef vöxtur hlaupsins heldur áfram svo lengi.

Gígja byltist fram kolmórauð undir brúnni. Vatnsflaumurinn ryðst fram enda á milli undir öllu brúarhafinu sem er nær 340 metra langt. Vatnamælingamennirnir Gunnar Sigurðsson og Hilmar Hróðmarsson hafa verið við mælingar á hlaupinu frá því það hófst. Þeir taka aursýni nokkrum sinnum á dag og mæla rennslið í ánni.

Leiðnin er enn að aukast og var leiðnitalan 516 í morgun sem er rúmlega fimmfalt venjulegt gildi í Gígju. Leiðnin er mælikvarði á magn uppleystra efna en nóg virðist vera af þeim í vatninu sem nú hleypur fram úr Grímsvötnum. 

Af og til berast ísjakar með straumnum en þeir eru koksgráir og varla ná upp úr flaumnum. Einn slíkur  „kafbátur“ rakst í vír mælingarmannanna í gær og hélt síðan för sinni áfram og lenti á raflínusamstæðu sem var úti í ánni. Sverir staurarnir kubbuðust í sundur að sögn Hilmars mælingamanns.

Samstæðan hélt uppi þremur rafstrengjum og hanga leifarnar af staur og þverbita í tveimur raflínum en sú þriðja slitnaði í nótt. Hjólaskófla og skurðgrafa eru nú að treysta bakka Gígju til að verja aðra staura í raflínunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert