Herþotur E.C.A. verði skráðar í öðru landi

Tvær Sukhoi Su-30 þotur taka eldsneyti á flugi.
Tvær Sukhoi Su-30 þotur taka eldsneyti á flugi.

Sú hugmynd hefur verið kynnt forsvarsmönnum fyrirtækisins E.C.A Program Ltd., að kannaðir verði möguleikar á skráningu sérhæfðra þotna fyrirtækisins í ríki þar sem reynsla er af rekstri herþotna enda þurfi skráning flugvélanna hér á landi ekki endilega að vera forsenda fyrir nýtingu mannvirkja á Keflavíkurflugvelli.

Segir samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytið, að nánast jafnmörg störf ættu að skapast við starfsemina hér á landi þótt þoturnar væru skráðar í öðru ríki.

E.C.A Program kynnti fyrst hugmyndir sínar um að skrá og starfrækja hér á landi Sukhoi SU-30 flugvélar til þjálfunar og æfinga. Ráðuneytið sendi í kvöld frá sér tilkynningu um stöðu málsins, þar sem m.a. er vísað til bréfs Flugmálastjórnar frá 24. september þar sem vakin er sérstök athygli á því að ekki liggi fyrir formleg umsókn frá fyrirtækinu.

Þá bendir stofnunin á, að ekki sé unnt að leggja inn umsókn um skráningu og útgáfu lofthæfisskírteina fyrir Sukhoi SU-30 herþotur enn sem komið er þar sem núgildandi reglur hér á landi nái ekki yfir slík loftför. Æskilegt sé að slík umsókn komi frá íslenskum lögaðila til að tryggja lögsögu Íslands og eftirlit með starfrækslu loftaranna.

Flugmálastjórn greinir jafnframt frá því að stofnunin hafi enn sem komið er ekki hafið frekari gagnaöflun eða greiningu á verkefninu enda þyrfti að ráða til þess sérstakan starfsmann eða kaupa að vinnu vegna þessa.

Ráðuneytið segist hafa haft þessi mál til skoðunar. Ljóst megi vera, að allnokkur undirbúningur, sem gæti tekið langa tíma, þyrfti að eiga sér stað ef setja eigi reglur hér að lútandi sem séu í samræmi við íslensk lög á þessu sviði og alþjóðaskuldbindingar. Einnig megi ljóst vera að mikill kostnaður fylgir þeim undirbúningi og fjárveitingar eru ekki fyrirliggjandi. Ráðuneytið tekur undir með Flugmálastjórn að verkefni þetta samræmist illa hefðbundnum verkefnum borgaralegra flugmálayfirvalda.

Þá kemur fram að Ögmundur Jónasson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, muni á næstu dögum gera ríkisstjórninni grein fyrir álitaefnunum og niðurstöðu sinni.

Tilkynning ráðuneytisins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert