Hvetja Írana til að fresta aftöku

Norrænu utanríkisráðherrarnir á blaðamannafundi í dag.
Norrænu utanríkisráðherrarnir á blaðamannafundi í dag. mbl.is/Ernir

Utanríkisráðherrar Norðurlandanna hvetja írönsk stjórnvöld til að fresta aftöku Sakineh Ashtiani. Þetta kom fram á fundi utanríkisráðherranna í morgun með fréttamönnum á Norðurlandaráðsþinginu á Grand hóteli.

Utanríkisráðherrarnir áttu fund í morgun áður en þeir hittu fréttamenn en þar ræddu þeir skýrslu fyrrum utanríkisráðherra Noregs, Thorvald Stoltenberg, um utanríkis- og öryggismál Norðurlanda. Ráðherrarnir telja það mikilvægt að ræða utanríkismál í sameiningu á grundvelli sameiginlegrar menningar og landafræðilegri legu Norðurlandanna.

 Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, sagði það mikilvægt að Norðurlöndin taki höndum saman í að vinna áætlun um þá mikilvægu siglingaleið sem kann að myndast í gegnum Norður-íshafið. „Öll Norðurlönd munu gegna hlutverki í þessu risastóra Norðurhafi,“ sagði Støre.

Þá sögðu ráðherrarnir það mikilvægt að Norðurlöndin beittu sér innan G20 hópsins. Ekkert Norðurland á aðild að hópnum en Finnland, Danmörk og Svíþjóð eiga óbeina aðild að G20 í gegnum Evrópusambandið.

„Miklar valdabreytingar eiga sér nú stað í heiminum. Það er mikilvægt að við gætum þess að löndin sem standa utan ESB verði ekki skilin útundan,“ sagði Støre.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert