Vatnshæðin í Gígjukvísl hefur hækkað um 40 cm síðan í gærkvöldi. Rennslið mældist 1659 rúmmetrar rétt fyrir klukkan 18 í gær og var það komið um og yfir 2000 rúmmetra í morgun.
„Ef þetta heldur áfram þá eru menn að áætla að þetta geti náð hámarki seinni partinn í dag,“ segir Egill Axelsson, sérfræðingur í vatnamælingum á Veðurstofu Íslands. Aðspurður segir hann rennslið geta farið upp í eina 4000 rúmmetra á sekúndu. „Það fer eftir því hvort að menn hafi reiknað vatnsmagnið rétt upp í Grímsvötnum, og að vatnið sé allt að fara niður. Í síðasta hlaupi 2004 fór þetta í einhverja 3300 rúmmetra, þannig að þetta vex aðeins hraðar en það hlaup.“
Að sögn Gunnars Guðmundssonar, jarðeðlisfræðings hjá Veðurstofunni, jókst óróinn í Grímsvötnum klukkan hálf þrjú í nótt og hefur hann haldist stöðugur.„Hann hefur ekki aukist á öðrum stöðum í nágrenninu og það er spurning hvað það þýðir. Hvort að það sé komin suða í kerfið eða þá að það hafi myndast foss við útfallið úr Grímsvötnunum sjálfum, en það gerðist 2004.“
Þá segist Gunnar ekki útiloka að um smá eldgos sé að ræða. „Það verður nú aldrei neitt stórgos þarna. Ef það verður gos þá verður það eitthvað svipað og árið 2004, sem var ekkert stórgos.“