Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, segir það fráleita niðurstöðu hjá Gylfa Arnbjörnssyni, forseta Alþýðusambands Íslands, að átök og ágreiningur á vettvangi stjórnmálana komi í veg fyrir að vinnumarkaðurinn nái markmiðum sínum.
Gylfi lýsti þessari skoðun í fréttum Útvarpsins í dag og lýsti vonbrigðum með lyktir samráðsfundar stjórnar og stjórnarandstöðu í gær.
Bjarni segir í yfirlýsingu, sem hann hefur sent frá sér, að það sé fráleit niðurstaða hjá forseta ASÍ að átök og ágreiningur á milli stjórnar og stjórnarandstöðu á Alþingi hindri það að aðilar vinnumarkaðarins nái þeim markmiðum sem þeir hafi sameinast um.
„Það er með ólíkindum að forseti ASÍ skuli ekki sjá það sem við öllum blasir, að það var ríkisstjórnin sem sveik skilmála stöðugleikasáttmálans við aðila vinnumarkaðarins. Sjálfstæðisflokkurinn, sem forseti ASÍ sér ástæðu til að hnýta í, átti þar engan hlut að máli," segir Bjarni m.a. í yfirlýsingunni.