Íslenskur karlmaður sem var handtekinn í Venesúela í tengslum við rannsókn lögreglu höfuðborgarsvæðisins á umfangsmiklu fjársvikamáli hefur enn ekki verið framseldur. Lögreglan segist hafa fengið afar takmarkaðar skýringar frá yfirvöldum í Venesúela.
Maðurinn var handtekinn í lok september og situr enn í fangelsi. Að sögn lögreglu hefur ekki gengið að fá manninn framseldan og þykir undarlegt að litlar upplýsingar hafi borist um það hvað sé að tefja málið.
Bæði alþjóðadeild ríkislögreglustjóra og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafa nánast daglega sent fyrirspurnir til Venesúela vegna málsins.
Lögreglan segir hins vegar að svona mál geti tekið langan tíma. Útlit sé fyrir að Íslendingurinn verði ekki framseldur heldur brottvísað, eins og það kallast á lagamáli, þar sem skilyrðum dómstóla varðandi framsal hafi ekki verið fullnægt.
Um er að ræða mál þar sem sviknar voru 270 milljónir króna út úr virðisaukaskattskerfinu.
Tveir eru nú í gæsluvarðhaldi hér á landi vegna þess. Gæsluvarðhaldið yfir þeim rennur út síðdegis á morgun.