Karlmaður á þrítugsaldri hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 11. nóvember að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Maðurinn, sem var handtekinn í gær, er sá fimmti sem grunaður er um aðild að máli sem er til rannsóknar hjá lögreglu og snýr að ætlaðri framleiðslu fíkniefna, sölu þeirra og dreifingu.
Fjórir aðrir
karlar, sem eru á þrítugs- og fertugsaldri, voru handteknir í Reykjavík og
Grímsnesi í síðasta mánuði vegna sama máls og úrskurðaðir í gæsluvarðhald sem
nú hefur verið framlengt yfir þeim öllum til 11. nóvember. Mennirnir fimm, sem
sitja í gæsluvarðhaldi, eru allir erlendir ríkisborgarar.
Eins og áður hefur komið fram voru framkvæmdar fimm húsleitir í þágu
rannsóknarinnar í Reykjavík, Reykjanesbæ og Grímsnesi. Lagt var hald á
amfetamín og kókaín og um 2 kg af marijúana auk fjármuna, eða um 6 milljónir
króna í reiðufé sem er álitið að sé afrakstur fíkniefnasölu.
Lögregla tók einnig í sína vörslu ýmis önnur verðmæti sem og hluti sem taldir eru tengjast ætlaðri brotastarfsemi. Við aðgerðirnar naut lögreglan á höfuðborgarsvæðinu aðstoðar lögregluliðanna á Selfossi og Suðurnesjum auk lögreglumanna frá embætti ríkislögreglustjóra.