Fyrrverandi eigandi að Laufásvegi 65 hefur valdið meðeigendum sínum verulegu tjóni vegna breytinga sem hann gerði á íbúð sinni. Íbúarnir hafa neyðst til að flytja út vegna leka af efri hæðum hússins. Breytingarnar eru gerðar án leyfis byggingafulltrúans í Reykjavík.
Í Morgunblaðinu í gær var rætt við Arnar Má Þórisson íbúa við Laufásveg 65, en Landsbankinn hefur krafist þess að hann verði borinn út úr íbúðinni. Arnar gagnrýndi framgöngu Landsbankans.
Íbúðin er ekki í eigu Arnars heldur fyrirtækisins sem heitir Nordic Workers sem Arnar á hlut í. Það fyrirtæki varð gjaldþrota í mars 2009. Eftir að félagið varð gjaldþrota gerði Landsbankinn leigusamning við Arnar Má, en hann rann út í apríl á þessu ári. Hann hefur því búið í íbúðinni í um 20 mánuði eftir að félagið varð gjaldþrota, að því er segir í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.