Samstaða meðal Seyðfirðinga

Seyðisfjörður
Seyðisfjörður Árvakur/Steinunn

Annað kvöld verður efnt til samstöðusamkomu í bíósal Herðubreiðar á Seyðisfirði að frumkvæði Hollvinasamtaka Sjúkrahúss Seyðisfjarðar, Seyðisfjarðarbæjar og velunnara stofnunarinnar. Tilefnið er boðaður niðurskurður fjarveitinga til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni í fjárlagafrumvarpinu.

Seyðfirðingar hafa sent frá sér ályktun um þetta efni þar sem segir að ef boðuðum niðurskurði verði fylgt eftir muni grundvöllur búsetu og tilveru fólks í dreifðum byggðum landsins bresta.

„Gríðarleg þjónustuskerðing verður í héraði og ljóst að sjúklingur og aðstandendur þeirra munu þurfa að dvelja langdvölum í burtu frá heimilum sínum með tilheyrandi kostnaði, vinnutapi og óþægindum. Samgöngur á Austurlandi eru ekki góðar og við erum í mestri fjarlægð frá stóru sjúkrahúsunum.  Við teljum okkur hafa rétt á þessari grunnþjónustu, óháð búsetu," segir í ályktun Seyðfirðinga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert