Allt er með kyrrum kjörum undir Grímsvötnum þessa stundina, einn og einn lítill skjálfti mælist þar. Hræringarnar eru að detta niður og engin merki um að eldgos sé í aðsigi að sögn Þórunnar Skaftadóttur, jarðfræðings hjá Veðurstofu Íslands. Skjálftahrina mældist við Kleifarvatn í nótt.
Hrina lítilla jarðskjálfta mældist snemma í morgun norðnorðaustur af Krýsuvík í nágrenni Kleifarvatns. Upptök flestra jarðskjálftanna voru á um fjögurra kílómetra dýpi. Þórunn sagði ekki óalgengt að jarðskjálftar verði á þessum slóðum og þessi hrina þurfi ekki að þýða neitt sérstakt.