Aukið aflamark til stuðnings minni byggðarlögum

Sjávarútvegsráðherra undirritaði í dag tvær reglugerðir sem fela í sér aukningu aflamarks til stuðnings minni byggðarlögum á fiskveiðiárinu 2010/2011.

Fram kemur í tilkynningu að aukningin sé innan heimildar 10. gr. laga um stjórn fiskveiða en þar sé tiltekið að ráðherra geti úthlutað allt að 12.000 tonnum af óslægðum botnfisk vegna stuðnings við byggðarlög.

Þá segir að hámark úthlutunar til minni byggðarlaga samanber lög um stjórn fiskveiða sé hækkuð úr 150 tonnum í 300 tonn. Tiltekið er að þessi breyting sé almenn og komi öllum þeim minni byggðarlögum til góða er falli undir hin almennu skilyrði.

Í samræmi við þetta hafi verið ákveðið að auka heildaraflamark fiskveiðiársins um 460 þorskígildistonn og renni sú aukning alfarið til aðgerðarinnar. Með þessari hækkun sé jafnframt komið í veg fyrir að raskað sé aðstæðum annarra byggðarlaga er njóti stuðnings skv. 10. gr. laga um stjórn fiskveiða. 

Með hliðsjón af þessu verði það aflamark sem úthlutað sé sérstaklega til stuðnings byggðarlögum samtals 4.345 tonn á fiskveiðiárinu sem sé lítið eitt lægra en það hafi verið á árabilinu frá 2005 til 2008. Tiltekið sé hér að á s.l. þremur fiskveiðiárum hafi verið úthlutað 760 tonnum meira til stuðnings byggðarlögum en það sem raunverulega hafi veiðst á sama tímabili undir þessari heimild.

Þá er vakin athygli á því að skipum sé skylt að landa í heimahöfn tvöföldu því magni sem úthlutað sé vegna stuðnings við byggðarlög ásamt því sem vinnsluskylda gildi í viðkomandi byggðarlagi og verði ekki veitt undanþágu frá því ákvæði vegna þeirrar aukningar sem hér er ákveðin.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert