Biður afsökunar á hegðun sinni á Ölstofunni

Læti voru á Ölstofunni í vikunni
Læti voru á Ölstofunni í vikunni mbl.is/Golli

Ungliði í flokki Svíþjóðardemókrata, William Hahne, hefur beðist afsökunar á hegðun sinni á Ölstofunni fyrr í vikunni. Líkt og fram hefur komið í bæði íslenskum og sænskum fjölmiðlum var honum hent út af kránni eftir að hafa hegðað sér ósæmilega gagnvart barþjóni á staðnum.

Samkvæmt frétt  sænska dagblaðsins Aftonbladet eru afar misvísandi frásagnir af hegðun Hahne á Ölstofunni. Hefur því verið haldið fram að hann hafi verið með kynþáttahatur gagnvart barþjóninum sem er af palestínskum uppruna. Hahne neitar því hins vegar.

William Hahne sendi eigendum Ölstofunnar skriflega afsökunarbeiðni samkvæmt frétt Aftonbladet en Hahne var á Ölstofunni ásamt fleirum Svíþjóðardemókrata en þeir unnu stóran sigur í síðustu kosningum í Svíþjóð. Flokkurinn er þjóðernisflokkur sem meðal annars berst gegn innflytjendum.

Aftonbladet hefur eftir öðrum Svíum sem voru einnig á Ölstofunni umrætt kvöld að hegðun Hahne hafi verið ósæmileg og hann öskrað og látið illum látum á barnum. Hahne segir aftur á móti að  barþjóninn hafi hent greiðslu korti í andlit sitt og sagt honum að yfirgefa staðinn. Hahne segir að í kjölfarið hafi hann skvett vatni yfir barþjóninn en óvart misst glasið í gólfið.

Það er hins vegar í andstöðu við það sem Kormákur Geirharðsson, annar eiganda Ölstofunnar, segir í samtali við Fréttablaðið en þar kemur fram að Hahne hafi kastað glasinu í barþjóninn.

Í afsökunarbeiðni Hahne kemur fram að það að hann sé einungis átján ára gamall afsaki ekki hegðun hans umrætt kvöld. 

Á Íslandi er bannað að selja fólki yngri en tuttugu ára áfengi. 

Frétt Aftonbladet í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert