Þorleifur Gunnlaugsson, fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði Reykjavíkurborgar, segir ljóst að verði tillögur fulltrúa Besta flokksins og Samfylkingar um fjárhagsaðstoð samþykktar, muni meirihluti borgarstjórnar ganga á bak orða sinna um það að færa notendur fjárhagsaðstoðar yfir lágtekjumörk og í sumum tilfellum muni fólk lækka í tekjum.
Lágtekjumörk eru 160.800 krónur á mánuði í ráðstöfunartekjur. Þorleifur lagði fram tillögu í velferðarráði í gær um að annars vegar skuli fjárhagsaðstoð vera nægjanleg til þess að þeir sem hennar njóti séu ekki undir fátækramörkum. Hinsvegar að hætt verði skerðingum á hjón og sambýlisfólk.
„Í tillögum meirihlutans er gert ráð fyrri því að fyrir þá sem reka eigið heimili verði gunnfjárhæð kr. 149.000 en aðstoð við hjón eða sambýlisfólk verði skert þannig að grunnfjárhæð til þeirra verði samanlagt kr. 223.500," segir í yfirlýsingu frá Þorleifi. „Síðan er talað um þá sem búa með öðrum eða bera ekki kostnað vegna húsnæðis en grunnfjárhæð til þeirra skal samkvæmt tillögunum verða kr. 125.540 og að lokum leggur meirihlutinn til að grunnfjárhæð þeirra sem búa hjá foreldrum verði kr. 74.500.
Eins og sést mun engin sem nýtur fjarhagsaðstoðar ná lágtekjumörkum og tveir síðast töldu hóparnir munu verða með sömu upphæð í krónutölu og ákveðin var í desember í fyrra. Tekjur þeirra munu því ekki hækka til jafns við verðlagshækkanir ársins sem þó hefur tíðkast undanfarin ár og er því um launalækkun að ræða."
Þorleifur segir að verði þessi leið farin verði hún hvati til undirheimaveraldar hjónaskilnaða, sambúðarslita og þess að fólk skrái sig til heimilis annars staðar en það býr. Sömuleiðis muni tillögurnar, nái þær fram að ganga, hindra fátækt fólk í viðleitni til að gera lífið bærilegra með hagræðingu sem byggir á samvinnu og samnýtingu húsnæðis. „Það er einnig umhugsunarvert að samkvæmt þessum tillögum myndi fullorðinn einstaklingur sem nyti fjárhagsaðstoðar og ákvæði að flytja inn til að aðstoða aldrað foreldri til að vera lengur heima, lækka í tekjum úr kr. 149.000 í kr. 74.500.