Forseti Alþingis gefur ekki upp afstöðu sína

Lögreglumenn fara á brott með einn mótmælenda við Alþingishúsið.
Lögreglumenn fara á brott með einn mótmælenda við Alþingishúsið. mbl.is

Lög gera ekki ráð fyrir því að forseti Alþingis komi að málshöfðun né heldur að hann láti í ljós álit sitt á einstökum þáttum hennar. Svo segir í svari Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, forseta Alþingis, við fyrirspurn Marðar Árnasonar, þingmanns Samfylkingarinnar, um ákæru á hendur níu einstaklingum vegna atvika við Alþingishúsið 8. desember 2008.

Mörður spurði m.a. hvernig skrifstofustjóri ræddi 100. gr. hegningarlaga í bréfi til lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins en í því var óskað eftir rannsókn á málinu.

Í bréfi skrifstofustjóra segir: „Nauðsynlegt er að tryggja öryggi þingmanna meðan á þingfundi stendur. Aðgangur að þingpöllum getur því ekki verið með öllu óhindraður og án eftirlits. Forseti Alþingis hefur falið þingvörðum framkvæmd þessa eftirlits og er það hluti af starfsskyldum þeirra að gæta að því að aðgangsreglum í þinghúsinu sé fylgt. Eins og áður segir er einn lögreglumaður enn fremur á vakt í þinghúsinu meðan á þingfundum stendur.
    Alþingi nýtur sérstakrar verndar í XI. kafla almennra hegningarlaga, sem fjallar um brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess. Þar segir í 100. gr. að hver sem ræðst á Alþingi, svo að því eða sjálfræði þess er hætta búin, sem lætur boð út ganga, sem að því lýtur, eða hlýðir slíku boði, skuli sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár, og getur refsing orðið ævilangt fangelsi ef sakir eru mjög miklar.“

Aðgerðin skipulögð fyrirfram

Jafnframt kemur fram að skrifstofustjóra hafi ekki verið ljóst hvað mannsöfnuðinum gekk til með athæfi sínu. „Miðað við þá aðferð sem notuð var til að koma hópnum inn í húsið virtist hann ekki kominn í friðsamlegum tilgangi eða að hann væri líklegur til að hlíta reglum. Ekki var hægt að útiloka að einhverjir í hópnum væru með innanklæða eitthvað sem skaðað gæti alþingismenn eða starfsmenn.“

Í bréfinu segir einnig að af myndbandsupptökum megi ráða að aðgerðin hafi verið skipulögð fyrirfram. „Menn komu einn af öðrum inn í húsið með stuttu millibili og varð þingvörður að sinna þeim. Sá síðasti fór hins vegar ekki inn heldur hélt hurðinni opinni og sá til þess að leiðin yrði greið fyrir þá sem á eftir komu. Þegar þingvörður hugðist láta loka dyrunum, eins og ráð er fyrir gert, var hann beittur ofbeldi og ýtt út um dyrnar. Þá voru fleiri starfsmenn beittir ofbeldi eða hindraðir við framkvæmd skyldustarfa sinna.“

Til meðferðar hjá dómstólum

Einnig spurði Mörður forseta Alþingis hvort 100. gr. eigi við um atvikin 8. desember 2008. Í svari sínu segir Ásta Ragnheiður að með því að óska eftir opinberri rannsókn hafi verið vakin athygli lögreglu á málinu. „Árétta verður að beiðnin var ekki skilyrði eða nauðsynleg forsenda þess að rannsókn færi fram enda hafði þingið ekki að lögum forræði á málinu á neinu stigi þess. Að lokinni rannsókn lögreglu var málið sent handhafa ákæruvalds til þess að leggja sjálfstætt mat á fyrirliggjandi málavexti og eftir atvikum að gefa út ákæru á grundvelli þeirra. Það var gert.“

Ásta bendir á að málið sé til meðferðar hjá dómstólum og bíði niðurstöðu, m.a. um það atriði sem spurt sé um. „Lög gera ekki ráð fyrir því að forseti Alþingis komi að málshöfðun né heldur að hann láti í ljós álit sitt á einstökum þáttum hennar, þar á meðal hvort heimfæra má tiltekin atvik undir einstakar greinar hegningarlaganna. Það er verkefni dómstóla.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert