HB Grandi hefur sent sjávarútvegsráðuneytinu ósk um leyfi til tilraunaveiða á gulldeplu og ef leyfið fæst þá gætu uppsjávarveiðiskip félagsins farið til veiða strax í næstu viku.
Vilhjálmur Vilhjálmsson,
deildarstjóri uppsjávarsviðs, telur að hægt verði að ná árangri á
veiðunum en reynsla undanfarinna tveggja ára hefur leitt í ljós að
sérhönnuð flottroll frá Hampiðjunni hafa skilað mun meiri afla en þau
flottroll sem fyrst voru reynd. Þetta kemur fram á vef HB Granda.
Sú ákvörðun sjávarútvegsráðherra að heimila veiðar á 40 þúsund tonnum af íslenskri sumargotssíld á þessari vertíð þýðir að 25 þúsund tonnum hefur nú verið bætt við byrjunarkvótann sem var upp á 15 þúsund tonn. Af þessari viðbót koma tæplega 2.800 tonn í hlut skipa HB Granda. Nokkur bið verður þó á því að farið verði til síldveiða að nýju.
Ástæðan er sú
að mikil óvissa var um það hvort aukið yrði við kvótann og því var
ákveðið að ráðast í smávægileg viðhaldsverk í fiskiðjuverinu og
fiskmjölsverksmiðjunni á Vopnafirði. Stefnt er að því að vinnsla hefjist
að nýju í frystihúsinu 22. nóvember nk. þannig að síldveiðar skipa HB
Granda ættu að geta hafist að nýju eftir u.þ.b. tvær vikur.