Samstaða um jafnan rétt til heilbrigðisþjónustu

Niðurskurðartillögur ríkisstjórnarinnar í heilbrigðisþjónustunni voru ræddar á fundi aðgerðarhópa frá flestum landshlutum á miðvikudaginn var. Í lok fundar var samþykkt ályktun þar sem harðlega var mótmælt „fyrirhugaðri aðför að heilbrigðisþjónustunni í landinu“.

Gert er ráð fyrir 4,7 milljarða króna niðurskurði í heilbrigðismálum og umtalsverðum skipulagsbreytingum með tilflutningi á þjónustu frá landsbyggðinni til Reykjavíkur og Akureyrar. Um 84% fyrirhugaðs niðurskurðar beinast að heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. „Verði tillögurnar að veruleika verður um leið réttur allra landsmanna til heilbrigðisþjónustu í nærumhverfi sínu í raun afnuminn auk þess sem þær fela í sér ógn við öryggi, lífskjör, búsetuskilyrði og atvinnutækifæri landsmanna á landsbyggðinni," segir í ályktun aðgerðarhópanna.

Enn fremur segir í ályktuninni:

„Heilbrigðisstofnanir og sjúkrahús landsins hafa mörg undanfarin ár tekist á við miklar áskoranir í kjölfar sífellt minni fjárframlaga og meiri niðurskurðar í starfsemi. Þessar áskoranir hafa m.a. falið í sér skipulagsbreytingar til hagræðingar og fækkun starfa þannig að unnt væri að koma til móts við niðurskurðarkröfur ríkisins. Þrátt fyrir stöðugar hagræðingaraðgerðir hefur hingað til tekist að halda uppi tiltölulega góðu og öruggu heilbrigðiskerfi þrátt fyrir að víða hafi þær leitt til skertrar þjónustu.

Nú hefur öryggismörkum hins vegar verið náð. Frekari niðurskurður mun bitna alvarlega á þeim sem síst skyldi, þ.e. veikum, fötluðum, öryrkjum og eldri borgurum og að auki hafa í för með sér stóraukinn kostnað fyrir heimilin, ekki síst á landsbyggðinni, m.a. vegna aukins ferðakostnaðar og lengri fjarvista frá aðstandendum. Auk þess eru stóru sjúkrahúsin ekki í stakk búin að mæta auknu álagi við núverandi aðstæður.

Ekki hefur verið sýnt fram á með óyggjandi hætti að fyrirhugaður niðurskurður muni hafa þjóðhagslegan sparnað í för með sér. Fremur virðist um tilflutning á fjármagni og störfum að ræða. Í tillögunum er t.d. ekki reiknað með þeim óhjákvæmilega aukna ferðakostnaði sem bæði ríkissjóður og neytendur þjónustunnar munu þurfa að axla.

Fundurinn gagnrýnir harðlega að við svo stórkostlegar skipulagsbreytingar á heilbrigðisþjónustu, sem tillögurnar gera ráð fyrir, skuli ekkert samráð haft við mikilvægustu hagsmunaaðilana sem tillögurnar snerta, svo sem fagfélög, fagfólk, stjórnendur stofnana og ekki síst þiggjendur þjónustunnar. Fundurinn leggur þunga áherslu á að úr því verði bætt og slíkt samráð fari fram fyrir opnum tjöldum á opinberum vettvangi. Aðeins þannig er unnt að ná árangri, bæði er varðar hægkvæmni og gæði með sátt allra aðila.

Fundurinn skorar á stjórnvöld að standa vörð um heilbrigðisþjónustuna og tryggja að fjárframlög til heilbrigðismála taki mið af raunverulegri þörf skjólstæðinga, sem jafnframt verði áfram tryggður sem jafnastur réttur til heilbrigðisþjónustu í nærumhverfi sínu."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert