„Það er ósk okkar og von sem að þessu standa að með því að sameina skólana verði hægt að búa til öflugri einingu sem verði til hagsbóta fyrir íslenskt atvinnulíf," segir Andrés Magnússon, stjórnarformaður Viðskiptaháskólans á Bifröst. Nemendum við Bifröst og Háskólann í Reykjavík var í dag kynntar viðræður sem standa yfir um sameiningu háskólanna tveggja.
Andrés segir að enn sé aðeins um viðræður að ræða, ekkert hafi enn verið ákveðið, en þær hafi staðið í rúma tvo mánuði og búið sé að fara yfir ýmis praktísk mál. „Núna þessar vikurnar stendur yfir kostgæfniathugun á því hvort af af sameiningu leiðið umtalsverð fjárhagsleg hagræðing. Því til þess að af þessu verði þarf að vera skýr fjárhagslegur ávinningur, í fyrsta lagi, og líka að af nýju skóla verði akademískur ávinningur til lengri tím. Það eru þessi tvö atriði sem verið er að gaumgæfa núna."
Kreppan hefur komið illa niður á bæði Bifröst og HR að sögn Andrésar. „Báðir skólarnir hafa horfst í augu við einhvern samdrátt í nemendafjölda og síðan er þessi gífurlegi samdráttur í ríkisframlaginu sem hvetur okkur, sem að þessum skólum standa, til þess að leita allra leiða til að bæta stöðuna. Vilji stjórnanna er alveg klár."
Andrés segir að stefnt sé að því að ljúka viðræðunum um miðjan nóvember en það þurfi þó að hafa sinn gang. Miðað hefur verið við að af sameiningunni gæti jafnvel orðið strax um áramót, en Andrés segir að í ljósi þess hve stutt sé til stefnu sé mjög hæpið að hægt verði að koma öllum praktískum atriðum í kring á þeim tíma. „Það er allavega ljóst að ef af þessu verður, þá verður það tryggt að þeir nemendur sem hafa hafið nám á hvorum staðnum fyrir sig þeir munu klára þar og ekki þurfa að flytja sig. Þannig að hagsmunir nemenda verða tryggðir."