Þingmenn úr Vinstrihreyfingunni-grænu framboði, Samfylkingunni, Framsóknarflokki og Hreyfingunni hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að kosin verði nefnd þingmanna sem rannsaki aðdraganda og ástæður þess að þáverandi ríkisstjórn Íslands ákvað að lýsa yfir stuðningi við innrás Bandaríkjanna og Bretlands í Írak vorið 2003 án samráðs við Alþingi.
Samkvæmt tillögunni á nefndin að fá í hendur öll gögn stjórnvalda, þar með taldar fundargerðir, minnisblöð og greinargerðir, sem geti varpað ljósi á þetta ferli. Gögnin verði jafnframt gerð opinber. Nefndin hafi einnig heimild til þess að kalla hvern þann til fundar við sig sem kunni að geta upplýst um tildrög ákvörðunarinnar.
Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG og formaður utanríkismálanefndar, er fyrsti flutningsmaður tillögunnar en auk hans standa 28 þingmenn að henni.