Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, sagði í morgunþætti Rásar 2 í morgun, að hann vilji að ríki og sveitarfélög endurskoði hver lágmarksframfærsla sé. Breyta þurfi fyrirkomulagi á félagsþjónustu þannig að fólk þurfi ekki að standa í biðröðum eftir mat.
Steingrímur sagði að sveitarfélög beri við erfiðum fjárhag og stóraukin útgjöld vegna félagslegra mála yrðu þung. En tryggja yrði, að allir hefðu sómasamlega framfærslu mat og húsaskjól, Íslendingar væru nógu ríkir til að leysa það mál.
Steingrímur sagði, að á bak við starf hjálparsamtaka væri mikil sjálfboðavinna, framlög frá fyrirtækjum og einstaklingum og það sýndi vilja Íslendinga til að hjálpast að í þessum aðstæðum. Hins vegar væri formið ef til vill ekki það heppilegasta.