„Andinn er mjög góður og það eru margir sem segja að þetta komi þeim verulega á óvart," segir Berghildur Erna Bernharðsdóttir upplýsingafulltrúi Þjóðfundar um stjórnlagaþing sem nú stendur yfir í Laugardalshöllinni. Í morgun hefur verið rætt um gildi og hugsjónir stjórnarskrárinnar og einnig um inntak stjórnarskrárinnar, en eftir hádegi verður stjórnarskráin rædd dýpra og á sérhæfðari sviðum að sögn Berghildar.
95% mæting er á fundinn og kynjahlutfallið er jafnt. Búið er að mynda s.k. orðaský eða hugsjónaský frá fyrsta hluta þjóðfundar, til að sýna hvaða gildi voru fundargestum hugleiknust í umræðunum í morgun. Jafnrétti fer þar fremst í flokki, en á eftir fylgja lýðræði, mannréttindi, heiðarleiki, frelsi, réttlæti, virðing og ábyrgð.
Tilgangur Þjóðfundarins er fyrst og fremst að kalla eftir meginsjónarmiðum og áherslum almennings um stjórnskipan landsins, stjórnarskrá og breytingar á henni. Stjórnlaganefnd mun síðan vinna úr niðurstöðum Þjóðfundar og leggja fyrir stjórnlagaþing þegar það kemur saman í febrúar 2011, ásamt eigin hugmyndum.
Berghildur segir að hingað til virðist upplifun fundargesta af umræðunum almennt mjög jákvæð. „Ég búin að spyrja um 20 manns hvort að þeir telji að niðurstöðurnar komi til með að gagnast stjórnlagaþingi og það eru langflestir á því, þannig að það er gaman að finna að fólk er sannfært um ágæti þessarar vinnu." Hún segir jafnframt að fundarstjórnin hafi gengið mjög vel fyrir sig. „Það er þetta fundaflæði sem er svo skemmtilegt. Það er gætt að því að allir fái sinn tíma og allir geti komið sínum skoðunum að, það er mjög mikilvægt og fólk er mjög ánægt með það."
Fundinum lýkur kl. 18 í dag en helstu áherslur verða kynntar á morgun á blaðamannafundi kl. 16. Unnt er að fylgjast með fundinum í beinni útsendingu á heimasíðu hans, Þjóðfundur 2010.