Félagsmálayfirvöld hafa gagnrýnt matargjafir hjálparsamtaka á borð við Mæðrastyrksnefnd og Fjölskylduhjálp Íslands. Sagt er að slíkar aðferðir séu ekki uppbyggjandi og að þær hvetji ekki til sjálfshjálpar.
Jón Gunnar Bernburg, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, segir engin rök vera fyrir því að aðstoð frá hjálparsamtökum hvetji síður til sjálfshjálpar en aðstoð hins opinbera. „Ég myndi halda að fjárstuðningur frá sveitarfélögum gerði fólk háðara aðstoð, heldur en matarpoki,“ segir Jón Gunnar. „Af hverju ætti þessi aðstoð að vera verri en önnur aðstoð?
Við vitum vel að hópur fólks er háður velferðarkerfinu af ýmsum ástæðum. Það er ekkert nýtt. Fátækt, rétt eins og allar erfiðar félagslegar aðstæður, er niðurbrjótandi til lengri tíma og dregur máttinn úr fólki.“
Víða erlendis er talað um að það gangi í erfðir að vera á framfæri hins opinbera. Jón Gunnar segir slíkt vissulega þekkjast hér á landi. „Það er afar erfitt að brjóta upp slíkt mynstur. Besta leiðin til þess er að minnka ójöfnuðinn í samfélaginu.“
En á hvaða hátt getur fé frá hinu opinbera fremur hvatt til sjálfshjálpar en matargjafir? „Þetta snýst um að ráða sínu eigin lífi. En við viljum meira samstarf við hjálparsamtökin, eða þriðja geirann eins þau eru stundum kölluð.“ Ingibjörg segist ekki geta svarað því hvers vegna ekki hafi verið farið út í slíkt samstarf fyrr, fyrir því séu án efa ýmsar ástæður.