Ósammála áformum um sameiningu

HÁSKÓLINN á Bifröst
HÁSKÓLINN á Bifröst Rax / Ragnar Axelsson

Magnús Árni Magnússon, rektor Háskólans á Bifröst, leggst gegn þeim hugmyndum sem nú eru uppi um sameiningu skólans við Háskólann í Reykjavík. Stjónarformaður Háskólans á Bifröst og rektor HR, sögðu í gær að verið að væri að skoða flutning alls grunnnáms til Reykjavíkur.

Andrés Magnússon, stjórnarformaður Háskólans á Bifröst, sagði í Morgunblaðinu í dag að verið væri að skoða þá leið að færa allar námsleiðir sem kenndar eru til gráðu frá Bifröst og til Reykjavíkur. Það hefði í för með sér að auk endurmenntunar verði einungis kennd styttri námskeið og frumgreinar í Borgarfirði. Hann lagði á það áherslu að þetta væri enn bara á hugmyndastigi, en taldi líklegt að töluverður sparnaður gæti hlotist af þeirri tilhögun.

Andrés staðfesti þannig það sem Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, sagði í fjölmiðlum um áformin, en þau voru kynnt nemendum beggja skóla í gær.

Magnús Árni sagði í samtali við fréttastofu RÚV nú í kvöld að hann legðist alfarið gegn þessum hugmyndum. Hann segir að verði þær að veruleika sé Háskólinn á Bifröst í raun lagður niður. Sem rektor skólans geti hann ekki sætt sig við það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert