Skipuleggjendur segja um 95% þeirra þúsund sem boðaðir voru hafa látið sjá sig. Fundað hefur verið frá því klukkan níu í morgun. Boðið hefur verið upp á skemmtiatriði milli fundarlotna á þjóðfundinum í Laugardalshöll. Kór Menntaskólans við Hamrahlíð söng fyrir gesti fyrir hádegið.
Áður en fyrstu niðurstöður fundarins voru kynntar fór hljómsveitin Sammi og félagar um salinn og spilaði tónlist.
Upp úr umræðum og tillögum þjóðfundarþátttakenda hefur verið unnið svokallað "orðaský" með þeim meginatriðum sem fundarmenn vilja að lögð verði áhersla á í stjórnarskrá Íslands. Helstu atriðin sem komið hafa fram eru þessi:
- Siðgæði
- Mannréttindi
- Valddreifing, ábyrgð og gagnsæi
- Lýðræði
- Náttúra Íslands vernd og nýting
- Réttlæti, velferð og jöfnuður
- Friður og alþjóðasamvinna
- Land og þjóð
Nú er unnið að setningasmíð, þar sem unnar eru heildstæðar setningar sem tjá megininntak þessara gilda. Þær setningar verða síðan lesnar upp á fundinum síðar í dag, en áætluð fundarlok eru milli klukkan 17 og 18.
Erlendir fjölmiðlar áhugasamir
Að sögn Berghildar Erlu Bernharðsdóttur eru fjölmiðlar frá nokkrum löndum staddir í Laugardalshöll og fylgjast grannt með gangi máli.
„Við verðum vör við þónokkurn áhuga hjá erlendum fjölmiðlum. Við erum búin að fá hérna finnska, norska, skoska og sænska blaðamenn, sem fylgjast með þessu af miklum áhuga,“ segir Berghildur, en einnig er blaðamaður frá viðskiptatímaritinu Forbes á svæðinu.