Birgitta: Almennar aðgerðir fyrir suma

Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Hreyfingarinnar
Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Hreyfingarinnar mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, segir að það hafi borið nokkuð á því að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hafi haldið því fram, á fundum með þingmönnum, hagsmunasamtökum og fjölmiðla, að sjóðnum finnist það nauðsynlegt að fara í almennar aðgerðir fyrir heimilin. Hún segir að það sé ekki rétt að AGS styðji almennar aðgerðir heldur einungis aðgerðir fyrir suma.

Hún greinir frá því á bloggi sínu að AGS hafi boðað Hreyfinguna á sinn fund á föstudaginn. Á fundinn mættu þingmenn Hreyfingarinnar og 4 fulltrúar frá AGS.

Hún segir að það líti út fyrir að það sé að takast að þurrka út millistéttina hérlendis eins og tókst í Argentínu. „Það sem var gagnlegt við fundinn með 4 fulltrúum AGS í gær var að hægt var að leiðrétta misskilning og fá á hreint álitamál.

Ég hóf fundinn á því að spyrja hvort að það væri rétt að sjóðurinn væri fylgjandi almennum aðgerðum. Þeir sögðu svo vera. Fulltrúar AGS viðurkenndu að þeir hefðu lagt þetta til síðan í upphafi árs 2009 og það hefði verið rætt við ríkisstjórnina, þingmenn og hagsmunasamtök.

Mér fannst eitthvað ekki passa og þrýsti á að fá vitneskju um hvað þeir ættu nákvæmlega þegar þeir töluðu um almennar aðgerðir. Þá kom hið merkilega í ljós: AGS styður almennar aðgerðir fyrir suma! (Í mínum huga er þá ekki hægt að kalla það almennar aðgerðir, ef það er bara fyrir suma.)," skrifar Birgitta en á bloggi sínu fer hún yfir skilgreiningar AGS á almennum aðgerðum varðandi húsnæðislán.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert