Breytt afstaða rektors óvænt

Háskólinn á Bifröst
Háskólinn á Bifröst Þorkell Þorkelsson

Viðræðum um mögulega sameiningu Háskólans á Bifröst og Háskólans í Reykjavík verður haldið áfram þrátt fyrir yfirlýsta andstöðu Magnúsar Árna Magnússonar, rektors Háskólans á Bifröst. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá formönnum stjórna skólanna tveggja.

„Óformlegar viðræður um mögulega sameiningu Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Bifröst hafa staðið yfir um nokkurt skeið og hafa þær farið fram af fullum heilindum. Báðir aðilar líta svo á að forsenda fyrir sameiningu sé að hún verði fjárhagslega og faglega skynsamleg," segir í sameiginlegri yfirlýsingu Andrésar Magnússonar, stjórnarformanns Bifrastar, og Finns Oddssonar, formanns Háskólaráðs HR. Engin niðurstaða hefur enn náðst formlega um hvort ráðist verður í sameiningu skólanna en allar viðræður hafa þó leitt að þeirri sameiginlegu niðurstöðu að rétt sé að halda viðræðum áfram, að sögn Andrésar og Finns.

„Það er ekki rétt sem fram hefur komið að leggja eigi niður alla háskólastarfsemi á Bifröst, ef af sameiningu verði. Hið rétta er að stefnt hefur verið að því að sameina kennslu á ákveðnum námsbrautum í húsnæði Háskólans í Reykjavík, en efla á Bifröst starfsemi eins og hagnýta þjálfun, styttri námsbrautir, frumgreinanám, námslotur í háskólanámi, stjórnendanám, endurmenntun og sumarskóla. Í þessu fælust ennfremur ýmis tækifæri til samstarfs við aðra háskóla og menntastofnanir," segir í yfirlýsingunni.

„Magnús Árni Magnússon, rektor Háskólans á Bifröst hefur tekið fullan þátt í þessu viðræðum og talað fyrir þeim, nú síðast á fundum með starfsfólki og nemendum skólans í síðustu viku. Því hefur sú breytta afstaða hans sem fram hefur komið um helgina, að hætta beri þessu viðræðum, komið okkur í opna skjöldu.

 Óformlegum viðræðum um mögulega sameiningu verður haldið áfram."

Háskólinn í Reykjavík
Háskólinn í Reykjavík Ragnar Axelsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert