Ímynd Íslands í molum

Daniel Chartier, prófessor við Quebec-háskóla í Montreal
Daniel Chartier, prófessor við Quebec-háskóla í Montreal mbl.is/Rax

Ímynd Íslands var mjög góð fyrir hrun en eftir hrun er það sett á sama stall og ímynd landa sem Ísland hefði aldrei áður verið borið saman við áður.  Þetta er meðal þess sem kemur fram í bók Daniels Chartier, The End of Iceland's Innocence. 

Fleiri þúsund greinar voru skrifaðar um Ísland við hrunið haustið 2008 en sáralítið er fjallað um Ísland í dag. Ef eitthvað er fjallað um Ísland þá er þar fjallað um hvort einhverjir hafi brotið lög hér. Hann segir að á einhverjum tímapunkti þurfi að fyrirgefa. Það hafi verið gert á Spáni og í Argentínu á sínum tíma.

Karl Blöndal tók viðtal við Chartier sem birtist í Morgunblaðinu í gær hann var einnig gestur í Silfri Egils í dag en hann mun árita bók sína í bókabúð Máls og Menningar milli klukkan 14 og 15. 

Chartier heldur einnig fyrirlestur í Háskóla Íslands, Árnagarði stofu 201 kl. 12-13.10 þriðjudaginn 9 nóvember.

Hann segir að gríðarleg umfjöllun hafi verið um Ísland þegar hrunið varð en þegar botninum var náð hætti umfjöllunin um Ísland. Það sem fólk man enn í dag  er að hér hrundi allt. Það eina sem margir vita um Ísland er að bankakerfið fór á hliðina og hvernig ákveðnir einstaklingar hegðuðu sér á landi.

Áður líkaði öllum vel við Ísland nema andstæðingum hvalveiða

Áður líkaði öllum vel við Íslendinga nema kannski andstæðingum hvalveiða, segir Charter. Þetta hafi hins vegar breyst og álitið og ímynd landsmanna sé í molum. 

Það sem gerðist á Íslandi gat gerst alls staðar og það er kannski þess vegna sem svo margir sýndu landinu áhuga við hrunið.

Hann segir að Ísland hafi margt upp á að bjóða og ætti að geta hugnast mörgum í stað þeirrar svörtu sýnar sem útlendingar hafa á landi og þjóð. Setningin „Ísland er gjaldþrota"  var aðeins nokkra klukkutíma að ná til allra helstu fjölmiðla í heiminum haustið 2008. Þegar leiðréttingu var komið á framfæri þá skilaði hún sér í smáfrétt, kannski á bls. 37.

Hann segir mikilvægt að hafa í huga að útlendingar velti ekki fyrir sér hvort einhver einstaklingur hafi sagt eitthvað eða gert eitthvað þegar þeir hugsa um Ísland heldur sé litið á þjóðina sem heild. 

Var Ísland í rauninni umfjöllunarefnið

Grein Karls Blöndal úr Morgunblaðinu í gær:

„Þegar bankakerfið hrundi á Íslandi var vart hægt að þverfóta í landinu fyrir erlendum blaðamönnum. Aldrei áður hafði jafn mikið verið skrifað um Ísland í erlenda fjölmiðla og þessi gríðarlega athygli var ekki komin til af góðu. Í bókinni The End of Iceland's Innocence fjallar Daniel Chartier, prófessor við Quebec-háskóla í Montreal, um ímynd Íslands í erlendum fjölmiðlum í orrahríðinni.

Chartier sagði í viðtali við Morgunblaðið að áhuginn á Íslandi hefði verið svona mikill vegna þess að hér hefði verið um að ræða mjög ríkt og velmegandi land, sem á nokkrum dögum hrundi algerlega saman.

„Menn sögðu við sjálfa sig að þetta gæti hent þá þar sem þeir væru í veikari stöðu,“ sagði hann. „Við þurfum að skoða þetta til að sjá hvaða áhrif þetta gæti haft á okkur. Nú eru komin önnur tilfelli, Grikkland, Spánn, Bandaríkin og jafnvel Bretland, þannig að athygli heimsins beinist ekki lengur að Íslandi.“

Chartier sagðist stundum velta því fyrir sér hvort Ísland hafi í raun verið umfjöllunarefnið.

„Þetta var leið fyrir ákveðið fólk til að koma skoðunum sínum og gildum á framfæri,“ sagði hann. „Það átti til dæmis við um dagblaðið Le Monde, sem er mjög hlynnt evrunni. Þeirra markmið var að sýna fram á hvernig lítið land myndi njóta verndar í stærri hópi.“

Chartier sagði að hrunið á Íslandi hefði valdið mörgum vonbrigðum sem litu á Ísland sem eins konar fyrirmynd.

„Skotum fannst Ísland og Noregur bera því vitni að þeir gætu líka verið sjálfstæðir,“ sagði hann í samtali við Morgunblaðið. „Eftir hrunið á Íslandi gátu Bretar sagt við Skota að þeir gætu ekki verið einir. Þeir hefðu beitt Íslendinga hörðu, en stutt við Bank of Scotland.“ Hrunið á Íslandi hefði verið áfall fyrir skoska sjálfstæðissinna.

„Annan hóp, sem varð fyrir vonbrigðum, er til dæmis að finna í Quebec í Kanada og Frakklandi,“ sagði hann. „Þessi hópur sá Ísland sem fyrirmynd í jafnréttismálum, sem sýndi hvernig hægt væri að vera ríkur en huga að velferð borgaranna allra. Hvort sem það var satt eða ekki var Ísland fyrirmynd í þeirra augum og að sjá landið hrynja var erfitt.“

Hann sagði að á hægri vængnum hefðu einnig orðið vonbrigði. „Þeim fannst að Ísland hefði verið rannsóknarstofa. Í bókinni er ég með tilvitnanir í þessa veru og niðurstaða þeirra sé sú að Ísland hafi sýnt að ekki eigi að ganga svona langt. Fátt getur verið meira niðurlægjandi en að hafa verið viðfang hóps sem vildi prófa tiltekna hagfræði.“

Chartier sagði að í umfjöllun erlendra fjölmiðla hefði verið sögð ákveðin saga, sem ekki var alltaf í samræmi við veruleikann. Til dæmis var ítrekað slegið upp að Ísland væri gjaldþrota land, þótt það hafi aldrei orðið raunin og þegar öllu sé á botninn hvolft sé ástandið á Íslandi síður en svo það versta í heiminum. Hvað sem því líði sé hollt að skoða með hvaða hætti var fjallað um landið á þessum tímum og velta því um leið fyrir sér hvers vegna svona mikið sé lagt upp úr því hér á landi hvaða augum aðrir sjá Ísland."

Annað tækifæri er aldrei gefið - aðeins hægt að bæta við ekki að snúa við

Daniel Chartier beinir í bók sinni sjónum sínum einkum að umfjöllun um efnahagshrunið á Íslandi í níu dagblöðum, sem gefin eru út á ensku og frönsku. Þar á meðal eru New York Times, Financial Times, Le Monde og Guardian, en leitar þó víðar fanga.

Í New York Times birtust 75 greinar um Ísland árið 2008, en í Financial Times var mun nánar fylgst með gangi mála og birti blaðið um 400 greinar, sem fjölluðu um Ísland, þar af næstum 250, sem eingöngu beindust að landinu. Chartier segir að í umfjöllun sé aldrei gefið annað tækifæri, aðeins sé hægt að bæta við frásögnina, ekki snúa henni við.

Ímynd Íslands er í molum að mati prófessors sem hefur …
Ímynd Íslands er í molum að mati prófessors sem hefur skrifað bók um Ísland mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert