Tekist á um atvinnumál í Silfri Egils

Leiðir til að koma Íslandi út úr efnahagskreppunni voru ræddar í þætti Egils Helgasonar, Silfri Egils í dag. Lilja Mósesdóttir, þingmaður VG, segir að fara þurfi hægar í niðurskurðinn sem boðaður er í fjárlagafrumvarpinu. Líta þurfi á ríkið sem atvinnurekanda og vernda þurfi störf sem þar eru. Niðursveiflan hér sé mun meiri en áður var talið.

Hún segir margt í tillögum Sjálfstæðisflokksins til þess að auka atvinnu hér á landi áhugaverðar. Hún sagðist hins vegar ekki vera sátt við annað. Til að mynda áherslu á stóriðju á Suðurnesjum. Ekki sé til næg orka á Suðurnesjum til reksturs yfir 200 þúsund tonna álvers.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að það sé ekki rétt hjá Lilju að ekki sé til næg orka. Hún sé til staðar annars staðar en á Suðurnesjum. Það er sú orka sem upp á vantar til reksturs álvers.

Árni Páll Árnason, segir að atvinnuleysi sé að festast í sessi hjá ungu fólki. Því þurfi að breyta og reyna að koma á menntabrautum fyrir ungt atvinnulaust fólk.

Engin fyrirstaða af hálfu ríkisstjórnarinnar gagnvart álverum. Það sé hlutverk orkuframleiðandans og kaupandans að komast að samkomulagi. 

Lilja segist telja nauðsynlegt að halda orkufyrirtækjunum í opinberri eigu. Það séu hagsmunir almennings.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert