Öldrunarheimili Akureyrar segja að boðaður niðurskurður á hjúkrunarrýmum muni hafa alvarlega keðjuverkum í för með sér. Biðlistar muni lengjast, álag muni aukast í heimaþjónustu, heimahjúkrun, í skammtímadvöl og jafnvel á Sjúkrahúsinu á Akureyri.
Þá muni álag einnig aukast á aðstandendur sem sinni skyldmennum sínum í heimahúsum. Ef staðið verði við boðaðan niðurskurð á hjúkrunarrýmum sé ljóst að loka þarf einni deild á Öldrunarheimilum Akureyrar og segja starfsfólki upp störfum.
Tilkynningin er svohljóðandi:
„Í frumvarpi ríkisstjórnarinnar til fjárlaga fyrir árið 2011 er boðaður niðurskurður um 7 hjúkrunarrými á Öldrunarheimilum Akureyrar, auk þess eru 3 hjúkrunarrými skorin niður á þessu ári. Samanlagt er því um að ræða niðurskurð á 10 hjúkrunarrýmum á Öldrunarheimilum Akureyrar.
Þessi niðurskurður er ekki síst alvarlegur í ljósi þess að hjúkrunarrýmum hefur nú þegar fækkað gríðarlega á Akureyri. Sjúkrahúsið á Akureyri (FSA) hefur frá árinu 2005 fækkað hjúkrunarrýmum úr 30 í 7, þar af hefur 5 hjúkrunarrýmum verið lokað á þessu ári. Óvíst er hversu lengi FSA heldur opnum þeim 7 rýmum sem eftir eru. Það er því grafalvarlegt að ráðuneytið boðar nú fækkun um 10 hjúkrunarrými til viðbótar á Akureyri. Verði þessi niðurskurður að veruleika mun hjúkrunarrýmum á Akureyri og í nágrenni fækka um 33 á aðeins 5 árum. Ef FSA lokar þeim rýmum sem þar eru eftir, þá mun hjúkrunarrýmum á svæðinu fækka um 40 eða 20% á örfáum árum, úr 200 í 160.
Biðlisti eftir hjúkrunarrýmum hefur þegar myndast á Akureyri og frekari niðurskurður mun leiða af sér ófremdarástand. Nú eru 18 einstaklingar á biðlista eftir hjúkrunarrýmum og 11 á biðlista eftir dvalarrýmum. Auk þess eru 28 einstaklingar á biðlista eftir skammtímadvöl sem er í hluta af leyfðum hjúkrunarrýmum.
Boðaður niðurskurður á hjúkrunarrýmum mun hafa alvarlega keðjuverkun í för með sér: Biðlistar eftir hjúkrunarrýmum munu lengjast, álag mun aukast í heimaþjónustu, heimahjúkrun, í skammtímadvöl og jafnvel á FSA. Álag mun einnig aukast á aðstandendur sem sinna skyldmennum sínum í heimahúsum – oft langt umfram getu.
Ef staðið verður við boðaðan niðurskurð á hjúkrunarrýmum er ljóst að loka þarf 1 deild á Öldrunarheimilum Akureyrar og segja starfsfólki upp störfum.“