„Þetta var mikið sjokk, maður er hálfskjálfandi ennþá og þreyttur eftir allt labbið,“ sagði Hilmir Snær Guðnason leikari snemma í gærkvöld eftir að hafa lent í óskemmtilegri lífsreynslu ásamt Jörundi Ragnarssyni leikara, sem svaf þegar Morgunblaðið náði tali af Hilmi.
Þeir félagar voru á rjúpnaveiðum austan við Mývatn í gærdag þegar sá síðarnefndi féll eina átta metra ofan í hraunsprungu við gíginn Lúdent.
Snjór var yfir öllu þegar óhappið varð og aðeins farið að skyggja, að sögn Hilmis Snæs. „Við skiptum liði síðasta spölinn og ég var kominn í bílinn þegar hann datt ofan í þessa sprungu. Hann féll um átta metra en sprungan er örugglega 20-30 metrar. Hann stöðvaðist á snjónibbu milli veggjanna í sprungunni,“ segir meðal annars í umfjöllun um óhapp þetta í Morgunblaðinu í dag.
Hilmir Snær segir björgunarsveitina hafa verið snögga á staðinn en alls hafi þetta tekið um tvo tíma. Skv. upplýsingum frá Landsbjörg aðstoðuðu björgunarsveitarmenn Jörund við að ná byssunni sem varð eftir í sprungunni.
Hilmir segir félaga sinn stálheppinn. „Hann er með kúlu á höfðinu og eina brotna nögl sem er ótrúlegt. Þetta er aðallega áfallið.“