Grunnskólabörn úr 3. bekk í Hörðuvallaskóla í Kópavogi heimsóttu Alþingi í dag þar sem þau afhentu Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, forseta Alþingis, og Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra póstkort með skilaboðum til ráðamanna þjóðarinnar, sem eru: „Hvað vil ég verða þegar ég verð stór?“
Athygli vekur að börnin í þessu árgangi er jafn mörg og þingmennirnir, eða 63 talsins. Einn nemandi ávarpaði Ástu Ragnheiði og Katrínu fyrir hönd samnemenda sinna og að því loknu afhentu nemendurnir póstkortin.
Hver og einn þeirra sendir einum þingmanni skilaboð um hvað hann óski sér að verða þegar hann verður stór og skólagöngu lýkur.
Þetta gera börnin í tilefni Alþjóðlegu athafnavikunnar, sem hefst 15. nóvember nk. og stendur til 21. nóvember.
Jarþrúður Ásmundsdóttir, markaðs- og kynningarstjóri Athafnaviku, segir að börnin hafi komið skilaboðum á framfæri til þingmannanna hvernig Ísland þau vilji búa í þegar þau verði fullorðin. Draumar þeirra og framtíðarsýn séu af ýmsum toga.
Þá bendir Jarþrúður á að eitt barnanna sem heimsótti Alþingi sé fjöfatlað og bundið við hjólastól. Það hafi komið þeim skilaboðum á framfæri að vonandi verði aðgengi fyrir fatlaða orðið gott þegar það er vaxið úr grasi.