Geimvera í íslenskum stjórnmálum

Jón Gnarr, borgarstjóri.
Jón Gnarr, borgarstjóri. mbl.is/Golli

„Ég er geimvera í íslenskum stjórnmálum sem enginn veit almennilega hvernig hann á að takast á við. Síðan er spurningin: Er einhver Arnold Schwarzenegger þarna úti?; og ég held ekki," sagði Jón Gnarr, borgarstjóri, í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld. Hann sagði m.a. að til greina komi að loka skíðasvæðinu í Bláfjöllum í sparnaðarskyni.

Jón sagðist vissulega fyrir kosningar ekki hafa viljað hækka útsvar og hann hefði ekki gert sér grein fyrir því hve staða Orkuveitunnar var slæm.  Nú lægi fyrir, að loka þyrfti 4,5 milljarða króna gati í fjárhagsáætlun Reykjavíkur fyrir næsta ár og verið væri að leita allra leiða til þess í náinni samvinnu við starfsfólk borgarinnar.

„Við höfum það að leiðarljósi að standa vörð um þjónustu við þá sem minnst mega sín og reyna að leita leiða í hagræðingu og  finna það sem gæti flokkast sem einhverskonar lúxus og skera þar niður," sagði Jón.

Hann sagði að Reykjavík væri með fullbúið skíðasvæði í Bláfjöllum en það eina sem vantaði væri snjór.  „Hvernig væri til dæmis að loka Bláfjöllum í tvö ár? Þar myndu sparast 87 milljónir," sagði Jón.

Um Orkuveituna sagði Jón að nauðsynlegt hefði verið að hækka gjaldskrá og segja upp starfsfólki.  

Ekki vanhæfur heldur mikilhæfur

Brynja Þorgeirsdóttir, fréttamaður Kastljóss, sagði við Jón að talað hefði verið um að hann væri vanhæfur til að gegna starfi borgarbúa og ekki með á nótunum um málefni borgarinnar. Jón sagði að það tal væri súrrealískt; hann væri frekar mikilhæfur. 

„Ég stofnaði stjórnmálaflokk fyrir nokkrum mánuðum sem hefur gersamlega snúið öllu á annan endann, að minnsta kosti í borginni," sagði Jón.  Hann sagði að ef hann væri vanhæfur væri allt þetta flinka og reynslumikla stjórnmálafólk búið að sópa sér út af borðinu.

„En það getur að ekki.  Það veit ekki hvað það á að gera við mig. Það situr á fundum og ræðir hvernig það eigi að díla við mig. Okkar þekktustu stjórnmálamenn eru að skrifa leiðara um mig," sagði Jón.

Hann sagðist vilja breyta stjórnmálum á Íslandi og þeirri hörku og klækjataktík sem þar væri beitt. „En þú beitir henni samt með því að ganga út af fundum, með því að gera grín að klæðaburði þess, tala um hve fólk er leiðinlegt," sagði Brynja Þorgeirsdóttir. „Hefur þú mætt á svona fundi?" spurði Jón á móti.  „Það er hægt að gera fundina skemmtilegri. Það þarf ekki að vera harkalegur og dónalegur til að halda fundi með fólki.

Nýi og Gamli Sjálfstæðisflokkurinn

Jón sagðist aðspurður telja að honum hefði tekist að byggja upp traust og virðingu í starfi sínum sem borgarstjóri, bæði meðal starfsfólks borgarinnar og annarra borgarbúa.

„En varðandi Sjálfstæðisflokkinn þá er ég farinn að upplifa hann dálítið eins og tvo flokka, sem ég kalla gamla Sjálfstæðisflokkinn og nýja Sjálfstæðisflokkinn.  Samstarfið hefði gengið vel við nýja Sjálfstæðisflokkinn en ekki  eins vel við gamla Sjálfstæðisflokkinn.

Gamli Sjálfstæðisflokkurinn finnst mér vera dálítið eins og Patrick Swayze í kvikmyndinni Ghost áður en hann áttaði sig á að hann var dáinn. Þar held ég að Besti flokkurinn geti verið Whoopi Goldberg og leitt sátt. Það held ég skipti höfuðmáli fyrir framtíð þessarar borgar og framtíð þessa lands," sagði Jón og bætti við að hann ætlaði að verða borgarstjóri að minnsta kosti út þetta kjörtímabil. 

Viðtalið við Jón Gnarr

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert