Um fjórðungur fólks á vinnualdri er ekki starfandi, samkvæmt tölum Hagstofunnar um vinnumarkaðinn á þriðja ársfjórðungi. Hún tekur saman tölur um hve margir eru starfandi og hve margir eru atvinnulausir.
Þessir hópar lagðir saman eru kallaðir vinnuafl þjóðarinnar í tölum Hagstofunnar. Hún tekur einnig fram hve stór hluti vinnuaflið er af „mannfjölda“ og er því hægt að reikna út hve mikill mannfjöldinn er.
Áhugavert er að sjá hve stór hluti fólks á Íslandi er ekki starfandi, jafnvel fyrir kreppu. Margar skýringar eru á þessu, eins og gefur að skilja. Sumt fólk er í námi, getur ekki unnið eða vill ekki vinna.
Opinberar tölur Hagstofunnar segja að atvinnuleysi á þriðja ársfjórðungi hafi verið 6,4 prósent. Er það hlutfall þeirra sem eru atvinnulausir af heildarvinnuafli – en ekki mannfjölda.
Í tölum um atvinnuleysi er því ekki að finna þá sem eru raunverulega atvinnulausir, en falla ekki undir skilgreininguna. Það eru til dæmis þeir sem eru búnir að gefast upp á því að finna vinnu og eru því ekki í atvinnuleit.
Það er til dæmis merkilegt að á hápunkti góðærisins, árið 2007, var tæpur fimmtungur „mannfjöldans“ ekki starfandi, eða 18 prósent. Þetta hlutfall hækkar svo árið 2009 í 23 prósent og er, eins og áður segir, 24 prósent á þriðja ársfjórðungi 2010. Þá er einnig áhugavert að sjá muninn á kynjunum að þessu leyti. Hlutfall þeirra karlmanna sem ekki voru starfandi á þriðja fjórðungi 2007 var 13 prósent, en var 23 prósent hjá konum. Í ár eru þessi hlutföll komin í 21 prósent hjá körlum og 27 prósent hjá konum.
Eins og áður hefur komið fram í Morgunblaðinu í umfjöllun um atvinnuleysi hefur samsetning vinnumarkaðarins breyst. Þeim sem vinna fullt starf hefur fækkað umtalsvert, einkum meðal karla. Á móti hefur hlutastörfum fjölgað. Í tölum Hagstofunnar eru hlutastörf og full störf lögð að jöfnu í útreikningum á atvinnuleysi. Það gefur hins vegar ekki rétta mynd af þróun vinnumarkaðar frá hruni, því það segir sig sjálft að maður í hálfu starfi framleiðir ekki á við mann í fullu starfi.
Hægt er að reikna út vegin starfsgildi á hverjum tímapunkti miðað við meðallengd vinnuviku í fullu starfi annars vegar og hlutastarfi hins vegar. Starfsgildi er ígildi eins fulls starfs og er reynt að reikna út hve mörg full störf eru í öllum hlutastörfum á vinnumarkaðnum. Þessi vegnu starfsgildi geta því gefið merki um slakann, sem skapast hefur á vinnumarkaði frá hruni.
Taka má þriðja fjórðung 2008 sem dæmi. Þá teljast 188.500 vera starfandi, en þar af eru 151.900 í fullu starfi og 31.900 í hlutastarfi. Meðalvinnuvika í fullu starfi var þá 47,1 klukkustund og í hlutastarfi var hún 25,4. Miðað við þetta er hvert hlutastarf því á við um hálft fullt starf. Starfsígildi á fjórðungnum voru því um 170.000 talsins, en ekki 188.500.
Vegið atvinnuleysi er því nokkuð sem reikna má út með því að horfa á hlutfall veginna starfsgilda og vinnuafls, í stað hlutfalls fjölda starfandi einstaklinga og vinnuafls, eins og gert er.
Þegar atvinnuleysi er skoðað með þessum hætti er það 16,8 prósent í stað 6,4 prósenta núna, en var 10,8 prósent árið 2007.
Taka verður þessum útreikningum öllum með ákveðnum fyrirvara, en þeir eru þó ákveðin vísbending um þann mikla slaka sem er á íslenskum vinnumarkaði og íslenska hagkerfinu.