Ákveðið hefur verið að afhenda ráðherrum á fimmtudag undirskriftalista með mótmælum íbúa á Suðurlandi gegn niðurskurði í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Sunnlendingar ætla að aka frá Selfossi til Reykjavíkur á fimmtudag á fólksbílum og langferðabílum.
Undirskriftum hefur verið safnað undir mótmælaskjal þar sem áformuðum niðurskurði er mótmælt og skorað á ríkisstjórn og Alþingi að tryggja að sjúkrahúsunum á Selfossi, Vestmannaeyjum og Höfn verði ekki lokað eins og boðað er í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár.
Sunnlendingar ætla að safnast saman við sjúkrahúsið á Selfossi klukkan 14:30 á fimmtudag og aka þaðan að Alþingishúsinu þar sem undirskriftirnar verða afhentar klukkan 16.