Nagladekk víða uppseld

Negld reiðhjóladekk gefa ótrúlega gott grip.
Negld reiðhjóladekk gefa ótrúlega gott grip. Kristinn Ingvarsson

Nagladekk undir reiðhjól eru uppseld í reiðhjólaversluninni Erninum og sömu sögu er að segja í Markinu. Nóg er til hjá GÁP. Verslunarstjóri Arnarins segir að algjör sprenging hafi orðið í sölu nagladekkja í fyrra og svo virðist sem ekkert lát ætli að verða á aukningunni.


Nagladekk eru nauðsynleg þeim sem ætla að hjóla að ráði í vetur. Góð nagladekk veita mikið grip gegn hálku og lætur nærri að hjólreiðamaður sé eins og negldur við svellbunkana.


Jón Þór Skaftason, verslunarstjóri Arnarins, segir að sala á nagladekkjum sýni með óyggjandi hætti að mun fleiri hjóli að vetrarlagi en áður. Nagladekk hafi aldrei selst eins vel og sala á vetrarfatnaði fyrir hjólreiðamenn hafi einnig margfaldast. Í fyrra seldi Örninn um 800 nagladekk og Markið um 400. Flestir setja nagladekk undir fram- og afturhjól en sumir láta sér nægja að setja undir framhjólið og því má slá á að 600-700 manns hafi keypt nagladekk hjá verslununum.
Örninn á von á lítilli sendingu á morgun, þriðjudag, en hún dugar skammt. Þegar hefur myndast biðlisti.


Fyrirspurnum rignir inn
Bæði Örninn og Markið selja dekk frá finnska framleiðandanum Nokian en þar er lagerinn á nagladekkjum fyrir reiðhjól nánast uppurinn.
GÁP selur nagladekk af gerðinni Kenda-Klondike. Mogens Markússon, verslunarstjóri GÁP, segir að fyrirspurnum um nagladekk rigni inn, m.a. vegna þess að víða annars staðar séu þau uppseld. „Það er greinilegt að margir ætla að hjóla í vetur. Bensínið er dýrt,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka