Samningi um viðbúnaðarþjónustu sagt upp

Akureyrarflugvöllur.
Akureyrarflugvöllur. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Isavia ohf. hefur sagt upp þjónustusamningi við Akureyrarbæ um viðbúnaðarþjónustu á flugvellinum á Akureyri. Óvíst er hvort samið verði á ný við Akureyrarbæ eða Isavia taki yfir þjónustuna, líkt og á Reykjavíkurflugvelli.

Um er að ræða sambærilega aðgerð og gerð var vegna viðbúnaðarþjónustu á Reykjavíkurflugvelli. Þá var þjónustusamningi við slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sagt upp. Ástæður uppsagna þessara þjónustusamninga eru almennur niðurskurður og vegna breytinga á flugvallareglugerð.

Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Isavia, segir ekki ljóst á þessari stundu hvernig verði með viðbúnaðarþjónustu á flugvellinum á Akureyri. Til skoðunar sé að semja að nýju við Akureyrarbæ, og þar með slökkvilið Akureyrar. „En það getur einnig farið svo að ekki verði samið upp á nýtt, líkt og í Reykjavík. Ekkert hefur verið ákveðið í þeim efnum. Það er búið að segja upp samningnum til að kanna hvort farnar verði aðrar leiðir eða samningnum breytt. En við verðum að segja honum upp til að taka hann upp.“

Isavia er opinbert hlutafélag sem annast rekstur og uppbyggingu allra flugvalla og lendingarstaða á Íslandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert