Skólastjóri dæmdur fyrir fjárdrátt

Tálknafjörður.
Tálknafjörður. www.mats.is

Héraðsdómur Vestfjarða hefur dæmt karlmann á fimmtugsaldri í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir fjárdrátt. Maðurinn dró sér eina og hálfa milljón króna sem skólastjóri Grunnskólans á Tálknafirði af reikningi skólans. Hann játaði skýlaust brot sitt og hefur þegar greitt féð til baka.

Skólastjórinn fyrrverandi var sakfelldur fyrir fjárdrátt og brot í opinberu starfi. Hann dró sér féð á tímabilinu 5. nóvember til 30. júlí 2009 en hann hafði aðgang að reikningum skólans í gegnum heimabanka. Féð færði hann yfir á bankareikning sinn og einnig á reikning eiginkonu sinnar.

Maðurinn bar við það fyrir dómi að hafa verið í fjárhagsvandræðum og miklu ójafnvægi þegar hann millifærði fjármunina á eigin reikninga. Skömmu áður hafði hann verið úrskurðaður gjaldþrota en skuldir þær sem þar hafi verið sóttar hafi að langmestum hluta varðað endurbætur á húseign á Snæfjallaströnd, þar sem tilraun hefði verið gerð til að reka ferðaþjónustu.

Lögmaður mannsins vísaði til þess að málið hafi valdið skjólstæðingi sínum miklum þjáningum. Dómurinn ætti að líta til þess við ákvörðun refsingar og einnig að um einstök mistök hafi veri að ræða sem ekki hafi getað farið leynt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert