Um 88% Hafnfirðinga telja lögreglu höfuðborgarsvæðisins skila góðu starfi í bænum. Hins vegar telja aðeins 59% íbúa bæjarins að lögregla sé mjög eða frekar aðgengileg á þeirra svæði, og hefur það hlutfall lækkað skarpt. Í gær hófust árleg fundahöld lögreglunnar á öllum svæðum í umdæminu og var fyrsti viðkomustaður í Hafnarfjarðarbæ.
Á fundinum kom fram að þróun afbrota í Hafnarfirði það sem af er ári er jákvæð. Brotum fækkar í öllum helstu brotaflokkum samanborið við sama tímabil í fyrra. Auk þess eru færri brot í Hafnarfirði en að meðaltali á höfuðborgarsvæðinu. Jafnframt hefur slysum í umferðinni í Hafnarfirði fækkað umtalsvert á árinu samanborið við síðustu ár.