Allt hefur gengið snurðulaust fyrir sig og Íslendingar staðið við allar tímaáætlanir í undirbúningi aðildarviðræðna við Evrópusambandið, að því er Timo Summa, formaður sendinefndar Evrópusambandsins á Íslandi, greindi frá á kynningarfundi nefndarinnar fyrir stundu.
Summa sagði lýðræðið standa styrkum fótum á Íslandi og að ný löggjöf um fjármögnun stjórnmálaflokka myndi auka gegnsæi í stjórnmálum.
Hann vék að umhverfismálum og löggjöf um fjármálamarkaði og sagði báða málaflokka í góðu samræmi við regluverk sambandsins.
Þá lýsti hann yfir stuðningi við samvinnu íslensku ríkisstjórnarinnar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.