Ekki happdrætti heldur vefur

Sigurður G. Guðjónsson.
Sigurður G. Guðjónsson. Friðrik Tryggvason

Glöggir vegfarendur á höfuðborgasvæðinu hafa án efa tekið eftir auglýsingum veðmálafyrirtækisins Betsson sem birtar eru á strætóskýlum. Auglýsir fyrirtækið þrátt fyrir að í júní á þessu ári hafi Alþingi samþykkt sem lög hert auglýsingabann. Lögmaður Betsson segir ekki verið að auglýsa happdrætti, auglýst sé vefsvæði.

Í lögum um happdrætti, með breytingum sem gerðar voru í sumar, segir að ekki megi auglýsa, kynna eða miðla hvers konar upplýsingum um happdrætti sem ekki hefur verið veitt leyfi fyrir samkvæmt lögum eða uppfyllir ekki skilyrði laganna, óháð því hvort starfsemi þess er rekin hérlendis eða erlendis.

Girt fyrir allan vafa

Þáverandi dómsmálaráðherra, Ragna Árnadóttir, sagði í framsöguræðu sinni að með breytingum á lögunum væri verið að „girða fyrir allan vafa  í þessum efnum“ og vísaði hún þar í dóm Hæstaréttar sem féll 11. júní 2009 en þá var Betsson sýknað af ákæru um að hafa auglýst vefsíðu sem bauð upp á þátttöku í veðmálum, pókerspili og öðru happdrætti sem ekki hafði verið veitt leyfi fyrir samkvæmt lögum um happdrætti.
Í dóminum sagði að ekkert hefði komið fram um að með umræddum auglýsingum væri verið að kynna happdrættis- eða veðmálastarfsemi sem rekin væri hérlendis. Þannig taldi rétturinn refsiákvæðið einungis ná til hérlendrar starfsemi.

Dómsmálaráðherra þáverandi sagði þá: „[S]ú niðurstaða brýtur í bága við fyrrgreind áform löggjafans að banna allar auglýsingar happdrætta hér á landi sem ekki hafa sérstakt leyfi til starfseminnar, hvort sem leyfið er veitt hér eða annars staðar. Er þessu frumvarpi ætlað að bæta úr þessu.“

Núverandi dómsmálaráðherra, Ögmundur Jónasson, tók til máls í umræðunni um herta auglýsingabannið. Hann fagnaði frumvarpinu og sagði það enn eitt skrefið í þá átt sem stefna ætti, „að banna spilavíti algjörlega, þessa spilakassa. Þessir spilakassar sem við sjáum í búðunum og í verslunum eru uppistaðan í spilavítunum í Las Vegas og við eigum ekki að líða svona starfsemi hér í okkar þjóðfélagi.“

Vefsvæði, ekki happdrætti

„Þó einhverjir áhrifamenn innan íþróttahreyfingarinnar og happdrættin á Íslandi hafi getað troðið í gegnum þingið lagabreytingu sem takmarkar auglýsingar erlendra happdrætta á Íslandi þá hefur það ekkert með auglýsingar á vefsíðum fyrirtækja að gera,“ segir Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Betsson á Íslandi, aðspurður um auglýsingarnar og lagabreytinguna í sumar.

Sigurður áréttar að ekki sé verið að auglýsa happdrætti heldur vefsvæði. Það sé ekki bannað með lögum. „Enda hef ég ráðlagt skjólstæðingum mínum að auglýsa aðeins veffangið.“

mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka