Ekki happdrætti heldur vefur

Sigurður G. Guðjónsson.
Sigurður G. Guðjónsson. Friðrik Tryggvason

Glögg­ir veg­far­end­ur á höfuðborga­svæðinu hafa án efa tekið eft­ir aug­lýs­ing­um veðmála­fyr­ir­tæk­is­ins Bets­son sem birt­ar eru á strætó­skýl­um. Aug­lýs­ir fyr­ir­tækið þrátt fyr­ir að í júní á þessu ári hafi Alþingi samþykkt sem lög hert aug­lýs­inga­bann. Lögmaður Bets­son seg­ir ekki verið að aug­lýsa happ­drætti, aug­lýst sé vefsvæði.

Í lög­um um happ­drætti, með breyt­ing­um sem gerðar voru í sum­ar, seg­ir að ekki megi aug­lýsa, kynna eða miðla hvers kon­ar upp­lýs­ing­um um happ­drætti sem ekki hef­ur verið veitt leyfi fyr­ir sam­kvæmt lög­um eða upp­fyll­ir ekki skil­yrði lag­anna, óháð því hvort starf­semi þess er rek­in hér­lend­is eða er­lend­is.

Girt fyr­ir all­an vafa

Þáver­andi dóms­málaráðherra, Ragna Árna­dótt­ir, sagði í fram­söguræðu sinni að með breyt­ing­um á lög­un­um væri verið að „girða fyr­ir all­an vafa  í þess­um efn­um“ og vísaði hún þar í dóm Hæsta­rétt­ar sem féll 11. júní 2009 en þá var Bets­son sýknað af ákæru um að hafa aug­lýst vefsíðu sem bauð upp á þátt­töku í veðmál­um, póker­spili og öðru happ­drætti sem ekki hafði verið veitt leyfi fyr­ir sam­kvæmt lög­um um happ­drætti.
Í dóm­in­um sagði að ekk­ert hefði komið fram um að með um­rædd­um aug­lýs­ing­um væri verið að kynna happ­drætt­is- eða veðmála­starf­semi sem rek­in væri hér­lend­is. Þannig taldi rétt­ur­inn refsi­á­kvæðið ein­ung­is ná til hér­lendr­ar starf­semi.

Dóms­málaráðherra þáver­andi sagði þá: „[S]ú niðurstaða brýt­ur í bága við fyrr­greind áform lög­gjaf­ans að banna all­ar aug­lýs­ing­ar happ­drætta hér á landi sem ekki hafa sér­stakt leyfi til starf­sem­inn­ar, hvort sem leyfið er veitt hér eða ann­ars staðar. Er þessu frum­varpi ætlað að bæta úr þessu.“

Nú­ver­andi dóms­málaráðherra, Ögmund­ur Jónas­son, tók til máls í umræðunni um herta aug­lýs­inga­bannið. Hann fagnaði frum­varp­inu og sagði það enn eitt skrefið í þá átt sem stefna ætti, „að banna spila­víti al­gjör­lega, þessa spila­kassa. Þess­ir spila­kass­ar sem við sjá­um í búðunum og í versl­un­um eru uppistaðan í spila­vít­un­um í Las Vegas og við eig­um ekki að líða svona starf­semi hér í okk­ar þjóðfé­lagi.“

Vefsvæði, ekki happ­drætti

„Þó ein­hverj­ir áhrifa­menn inn­an íþrótta­hreyf­ing­ar­inn­ar og happ­drætt­in á Íslandi hafi getað troðið í gegn­um þingið laga­breyt­ingu sem tak­mark­ar aug­lýs­ing­ar er­lendra happ­drætta á Íslandi þá hef­ur það ekk­ert með aug­lýs­ing­ar á vefsíðum fyr­ir­tækja að gera,“ seg­ir Sig­urður G. Guðjóns­son, lögmaður Bets­son á Íslandi, aðspurður um aug­lýs­ing­arn­ar og laga­breyt­ing­una í sum­ar.

Sig­urður árétt­ar að ekki sé verið að aug­lýsa happ­drætti held­ur vefsvæði. Það sé ekki bannað með lög­um. „Enda hef ég ráðlagt skjól­stæðing­um mín­um að aug­lýsa aðeins veffangið.“

mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka