Fundi, sem átti að vera síðdegis í dag með fulltrúum ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðuflokka, hefur verið frestað til morguns. Á fundinum átti að fjalla um skuldavandann og samstarf í atvinnumálum.
Þá hefur fundi, sem halda átti í kvöld í Þjóðmenningarhúsinu með ráðherrum og fulltrúum fjármálafyrirtækja, lífeyrissjóða, Íbúðalánasjóðs og Hagsmunasamtaka heimilanna, verið frestað til fimmtudags.
Vonast var til þess, að niðurstaða reiknihóps, sem fjallað hefur um tillögur til að taka á skuldavanda heimila, lægi fyrir í dag. Fram kom í Morgunblaðinu í dag, að hópurinn hafi verið að störfum undanfarnar vikur, undir stjórn Sigurðar Snævars, hagfræðings og ráðgjafa ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.
Til stóð að ljúka þessari vinnu í síðustu viku en það tókst ekki. Hefur mikill tími farið í að útvega ýmis gögn og reikna út frá þeim hvaða leiðir geti verið hagkvæmastar fyrir lánveitendur og lántaka.