Fyrirtaka í skaðabótamáli Glitnis

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þorkell

Skaðabótamál Glitnis á hendur Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Lárusi Welding, Pálma Haraldssyni og þremur öðrum fyrrverandi starfsmönnum bankans var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Lögmenn Glitnis hafa jafnframt krafist kyrrsetningar á eignum Jóns Ásgeirs og Lárusar.

Skaðabótamálið snýst um ákvörðun Glitnis að veita FS38, dótturfélagi Fons hf., sex milljarða króna lán til að kaupa bréf í Aurum af Fons.

Tekist var á um það í dómssal í dag hvort fjalla eigi sérstaklega um kyrrsetninguna áður en málflutningur hefst í sjálfu skaðabótamálinu. Ragnar Hall, verjandi Lárusar, og Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs, krefjast þess að sakarefninu verði skipt í tvennt. Fyrst verði tekist á um skilyrði kyrrsetningar, þ.e. hvort þau séu fyrir hendi.

Það var samþykkt og því ákveðið að skipta sakarefninu að beiðni verjendanna og verður því fyrst verði fjallað um framkvæmd kyrrsetningar. Var málinu frestað til. 6. desember. 

Þá lagði verjandi Magnúsar Arnars Arngrímssonar fram frávísunarkröfu og fer málflutningur um hana einnig fram 6. des. 

Hróbjartur Jónatansson, lögmaður Glitnis, mótmælir kröfunni og telur að málið sé nægilega skýrt, en því er haldið fram í frávísunarkröfunni að það sé óskýrt.

Varðandi kyrrsetningarkröfuna segir hann að öll lagaleg skilyrði séu uppfyllt. „Það er lögvarin krafa sem Glitnir banki á á hendur þessum mönnum sem fullnægja skilyrðum réttarfarslega.“ Ekki sé efni á þessu stigi að hafna kyrrsetningu. Um sé að ræða ákveðnar afmarkaðar eignir.

Sakborningar voru ekki viðstaddir í réttarsal í dag. Málið er höfðað á hendur Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Lárusi Welding, Pálma Haraldssyni, Magnúsi Arnari Arngrímssyni, Rósant Má Torfasyni og Guðnýju Sigurðardóttur.  


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert