Samþykkt var á ríkisstjórnarfundi að tillögu dómsmálaráðherra að skoða flutning á starfsemi Landhelgisgæslunnar á öryggissvæðið á Miðnesheiði. Einnig var samþykkt að mynda starfshóp með heimamönnum vegna atvinnumála á Suðurnesjum en ríkisstjórnin fundaði í Reykjanesbæ í morgun. Þetta kom fram í máli forsætisráðherra með blaðamönnum eftir ríkisstjórnarfund í dag.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segir ríkisstjórnina hafa átt góðan fund með sveitarstjórnarmönnum á Suðurnesjum í morgun. Taka þurfi atvinnumálin föstum tökum á svæðinu en atvinnuleysi er meira á Suðurnesjum heldur en annars staðar á landinu.
Segir Jóhanna að veita þurfi meiri fjárhagsaðstoð þar heldur en annarsstaðar.
Þetta er í fyrsta skipti sem ríkisstjórn Ísland fundar á Suðurnesjum en ríkisstjórnin sem nú situr fund á Akureyri á sínum tíma og var það í fyrsta skiptið sem ríkisstjórn Íslands heldur fund utan höfuðborgarsvæðisins. Jóhanna vill að ríkisstjórnin haldi fleiri fundi á landsbyggðinni og tekur Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra undir það.
Jóhanna og Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ eru sammála um það eftir fundinn í morgun að ljóst sé að menn séu að róa í sömu átt þó svo að Árni segi að það mætti gjarna róa aðeins hraðar. Hann segir að fleiri mál hafi verið rædd á fundi með ríkisstjórninni heldur en fram komu á blaðamannafundinum og þetta lofi góðu varðandi framhaldið.
Samþykkt á ríkisstjórnarfundi að skipa sameiginlega verkefnastjórn með heimamönnum á málum sem tengjast Suðurnesjum. Unnið í nokkurn tíma að þessum fundi - að styðja við atvinnuppbyggingu á Suðurnesjum.
Tíu mál voru samþykkt á fundinum og önnur tíu í vinnslu.
Að sögn Steingríms á að koma á fót safni tengdu dvöl Bandaríkjahers á Íslandi. Verður safnið sett upp á Keflavíkurflugvelli. Unnið í samvinnu bæði andstæðinga hersins og stuðningsmanna. Þetta þýði að Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar fær fleiri verkefni og getur þýtt að mun fleiri eigi eftir að heimsækja svæðið.
Steingrímur segir að auka eigi markaðsstarf á vegum Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar en það annast umsýslu eigna ríkisins á öryggissvæðinu, til að hleypa meira lífi í atvinnumál á Suðurnesjum.
Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, segir að málefni álversins í Helguvík sé í samráðsferli og hún vonast til þess að á næsta samráðsfundi verði línur farnar að skýrast. Meðal annars varðandi orkuverð ofl.
Steingrímur segir að verkefni sem tengjast breytingum á Miðnesheiði geti fjölgað störfum talsvert á svæðinu. Strax í vetur ætti þetta að geta skilað talsverðum störfum meðal annars fyrir iðnaðarmenn. Ekki skynsamlegt að nefna neinar tölur þar, segir Steingrímur.
Hvað varðar spítala á Keflavíkurflugvelli þá vildi Steingrímur ekki tjá sig að öðru leyti en að unnið sé í þeim málum.