Áttatíu ár eru í dag liðin frá því heitu vatni var hleypt á Laugaveituna, fyrstu hitaveituna í Reykjavík. Austurbæjarskólinn við Barónsstíg naut fyrst heita vatnsins sem veitt var úr grunnum borholum við Þvottalaugarnar í Laugardal. Afmælisins verður minnst í næsta mánuði þegar ný hitaveita frá Hellisheiðarvirkjun verður tekin í notkun.
Í tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur segir m.a., að á upphafsárum hitaveitunnar hafi orðið mikill ábati. „Þannig fór tíðni skráðra kvefpesta í Reykjavík úr 22 á hverja 100 íbúa árið 1937 niður í 4 árið 1948. Er það að verulegu leyti rakið til bættrar húshitunar. Fylgikvilli var þó sá að kjallarar húsa í borginni urðu svo heitir að ekki var hægt að geyma þar lengur kartöflur. Voru kartöflugeymslurnar við Ártúnsbrekkuna þá byggðar og standa þær enn þó þær þjóni öðrum tilgangi.“